Friðargæsla

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 13:59:10 (6319)

2001-04-04 13:59:10# 126. lþ. 106.1 fundur 618. mál: #A friðargæsla# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þeir aðilar sem við höfum haft samráð og samband við út af þessu máli eru fyrst og fremst embætti ríkislögreglustjóra, Rauði krossinn á Íslandi, norræn utanríkisráðuneyti, Atlantshafsbandalagið og fleiri aðila mætti telja til í þessu sambandi.

Rétt er að taka fram vegna fyrirspurnar hv. þm. að það á eftir að koma í ljós hvort unnt er að fjölga íslenskum friðargæsluliðum svo ört sem við erum með áætlanir um. Ef miðað er við það að eðlilegur starfstími hvers starfs séu sex mánuðir, þá þurfa 50 manns að starfa erlendis við friðargæslu á ári hverju til að ná markmiðunum um 25 starfsmenn að staðaldri og við þurfum að sjálfsögðu að taka mið af því hvaða áhugi verður hjá fólki að gefa kost á sér til þessarar friðargæslu og aðstæðum hverju sinni á alþjóðavettvangi.

Ástæðan fyrir því að við leggjum í þetta starf er ekki síst að það fólk sem starfað hefur að friðargæslu á vegum Íslands á alþjóðavettvangi á undanförnum árum hefur staðið sig frábærlega vel. Þetta fólk hefur alls staðar getið sér mjög gott orð og það er eftirsótt hvar sem það hefur verið og hefur staðið sig með þeim hætti að það er mjög eftirsóknarvert að fá það til starfa. Á það er rétt að leggja áherslu og þakka þeim mörgu einstaklingum fyrir það fórnfúsa framlag sem margir hafa lagt af höndum í því sambandi.

Að því er varðar ráðuneytið sjálft, þá höfum við gert ráð fyrir því að það verði fyrst og fremst einn starfsmaður ábyrgur fyrir þessu starfi, a.m.k. til að byrja með. Við væntum þess að einn starfsmaður geti annað því í upphafi en síðan verðum við að sjá til með það hvort fleiri þurfi að koma að, eða hvort ráðuneytið getur annað því með öðrum hætti.