Samfélagsþjónusta

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:01:49 (6320)

2001-04-04 14:01:49# 126. lþ. 106.2 fundur 563. mál: #A samfélagsþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Með lögum um fangelsi og fangavist frá árinu 1997 sem tóku gildi 1. janúar 1998 varð samfélagsþjónusta endanlega hluti af fullnustu á óskilorðsbundinni refsivist. Síðan samfélagsþjónusta var heimiluð má segja að almennt ríki sátt um þetta úrræði sem slíkt. Hins vegar hefur komið upp gagnrýni og umræður spunnist um hver eigi að ákveða samfélagsþjónustuna, hvaða aðili sé hinn rétti til að ákveða að samfélagsþjónustu verði beitt.

Í núgildandi lögum er það Fangelsismálastofnun sem í sjálfu sér væri ekki óeðlilegt ef samfélagsþjónusta væri ekki refsing. Ég held að flestir fræðimenn séu sammála því að samfélagsþjónusta falli undir það að vera ein tegund refsinga. Samfélagsþjónusta er úrræði sem beitt er vegna afbrota og er því í eðli sínu refsing. Refsingar ákveða dómstólar en ekki stjórnsýslustofnanir.

Sú tilhögun sem er hér við lýði, þ.e. að Fangelsismálastofnun ákveði samfélagsþjónustu, er sérstæð og á sér ekki hliðstæðu í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, t.d. á Norðurlöndum og í Bretlandi. Þar er ákvörðunarvaldið hjá dómstólum. Samfélagsþjónustu má beita þegar dómar mæla fyrir um óskilorðsbundna refsivist allt að sex mánuðum. Slíkir dómar eru meginhluti allra dóma og hefur Fangelsismálastofnun því mjög rúma heimild sem felst í samfélagsþjónustunni.

Ég hef þegar minnst á að samfélagsþjónusta sé refsing í eðli sínu. Því tel ég rétt að setja ákvæði um samfélagsþjónustu í hegningarlög og gera samfélagsþjónustuna þar með formlega að refsitegund. Dómstólar geta þá beitt þessu refsiúrræði þegar þeir standa frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að meta hvort sakborningi skuli dæmd óskilorðsbundin refsivist eða skilorðsbundin.

Með tilliti til 2. gr. stjórnarskrár og 65. gr. stjórnarskrár, þ.e. að enginn verði sviptur frelsi sínu nema úrskurður dómara komi til, er í fyllsta máta eðlilegt að hugað verði að endurskoðun á þessu fyrirkomulagi, þ.e. hvernig ákvörðun um samfélagsþjónustu er tekin. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann muni beita sér fyrir því að dómstólar geti beitt þessu refsiúrræði, samfélagsþjónustunni, en ekki Fangelsmálstofnun ríkisins.