Samfélagsþjónusta

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:08:03 (6322)

2001-04-04 14:08:03# 126. lþ. 106.2 fundur 563. mál: #A samfélagsþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp og vil koma aðeins inn á það við þetta tækifæri.

Ég átti sæti í nefndinni sem undirbjó lögin sem sett voru árið 1994 og tóku gildi 1995. Þá var talað um að lögin væru aðeins í tilraunaskyni og ætti að endurskoða þau 1997. Þá töldu menn einmitt að þetta ákvæði, í hvers höndum úrræðið ætti að vera, þyrfti að fá um tveggja ára tilraunatímabil og að þeim tíma loknum væri sjálfsagt að færa það yfir til dómstólanna. Það var hins vegar ekki gert 1997.

Ég held að það, að úrskurður um samfélagsþjónustu er ekki hjá dómstólunum, hafi m.a. haft þá afleiðingu að þessu úrræði er mjög sjaldan beitt þegar ungmenni eiga í hlut. Það var aðeins notað í átta tilvikum á tímabilinu 1995--1998 þegar um ungmenni á aldrinum 15--19 ára var að ræða.