Átak í lífrænni ræktun

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:22:01 (6325)

2001-04-04 14:22:01# 126. lþ. 106.4 fundur 580. mál: #A átak í lífrænni ræktun# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr:

,,Hvernig hefur verið unnið að því að auka hlut landbúnaðarafurða, sem hlotið hafa lífræna vottun, samkvæmt ályktunum Alþingis 4. júní 1998 og 10. mars 1999?``

Á vegum landbrn. hefur frá árinu 1995 starfað átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Í starfi þess hefur verið lögð áhersla á kynningu og fræðslu meðal bænda um lífræna ræktun og veittur hefur verið fjöldi styrkja til rannsókna á þessu sviði. Ársskýrslum verkefnisins hefur á hverju ári verið dreift til alþingismanna svo þeir hefðu tækifæri til að fylgjast með framvindu þessa verkefnis. Um frekari upplýsingar varðandi þennan 1. lið fyrirspurnarinnar vísa ég til þessara gagna.

Önnur spurning:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir breyttum áherslum í íslenskum landbúnaði við gerð næstu búvörusamninga með tilliti til aðlögunarstuðnings við lífrænan landbúnað?``

Núgildandi búvörusamningur um mjólkurframleiðslu gildir til ársloka 2005 og nýgerður samningur um sauðfjárframleiðslu gildir til ársins 2007. Ekki eru uppi áform um endurskoðun þessara samninga með tilliti til þess hvernig auka megi lífræna framleiðslu. Hins vegar er samningur um framlög ríkisins samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998, nú í endurskoðun. Í þeim viðræðum hafa fulltrúar landbrn. lagt fram hugmyndir um sérstök framlög til aðlögunar lífrænni framleiðslu er komi til framkvæmda frá árinu 2002.

Þriðja spurning:

,,Mun ráðherra leggja áherslu á fjölskyldubú í næstu samningum eins og gert hefur verið erlendis eða mun ráðherra styrkja sérhæfingu í búskap sem oft leiðir til einhæfni og verksmiðjubúskapar?``

Ég vil svara því þannig að einingar í íslenskum landbúnaði eru nær undantekningarlaust fjölskyldubú og hefur það verið afstaða stjórnvalda og samtaka bænda á undanförnum áratugum að slíkt rekstrarform væri ákjósanlegt við íslenskar aðstæður. Hins vegar hafa einingarnar stækkað á undanförnum áratugum og þeim fækkað. Þar veldur mestu krafa um aukna hagræðingu og lægra vöruverð og svo að sjálfsögðu krafa bændafjölskyldna um hliðstæða afkomu og aðrir í samfélaginu njóta. Þá fylgir mikill kostnaður tæknivæðingu í nútímalandbúnaði svo og kröfum sem gerðar eru til alls útbúnaðar og aðstöðu við framleiðsluna. Nær útilokað er fyrir mjög smáar einingar, því miður, að standa undir slíkum kostnaði. Ég vil að menn forðist að bera saman íslenskan landbúnað og þann landbúnað sem starfar í landinu og er rekinn á þessum fjölskyldugrundvelli og líkja honum við Evrópubúskapinn, verksmiðjurnar stóru sem nú eru eins og himnarnir að hrynja yfir bændur og neytendur í mörgum þjóðlöndum. Við Íslendingar höfum verið gæfumenn að því leyti að við höfum lagt áherslu á þennan fjölskyldubúskap. Sannarlega er það svo að það hefur reynst okkur vel og það sem auðvitað er líka gagnlegt er að á síðustu árum hefur verið samstaða ríkisstjórnar og Alþingis um að auka hlutverk íslenskra bændafjölskyldna við mörg önnur verkefni, þ.e. hið fjölþætta hlutverk landbúnaðarins sem skiptir svo miklu máli í framtíðinni.

Síðasta spurning hv. þm.:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir sérstöku átaki í lífrænum landbúnaði með tilliti til þeirrar þróunar sem orðið hefur í útbreiðslu sjúkdóma í búfé?``

Ég vil svara því þannig að stefna þess ráðherra sem hér er er að allt sé gert sem hægt er til að verjast sjúkdómum í landbúnaðinum án tillits til þess hvort um er að ræða hefðbundinn eða lífrænan landbúnað. Ég hef fyrr sagt að lífrænn landbúnaður á heimsvísu vísar okkur leið. Hann er ljós í veröldinni sem markar nýja stefnu og hefur áhrif, ekki síst áhrif á þá þróun að stóri verksmiðjubúskapurinn, sóðaskapurinn, misbeiting við skepnur, ill meðferð á náttúru landsins mun eiga undir högg að sækja og þeir bændur í mörgum þjóðlöndum sem hafa gengið þessa leið eða með þessum hætti verða að víkja út úr framleiðslunni. Ég vona að við Íslendingar berum gæfu til að einangra þessa aðila og þeir nái ekki tökum á íslenskri náttúru eða verði bændur í íslenskum landbúnaði. Þess vegna þurfum við að gera allt hér til þess að það verði ábyrgar fjölskyldur sem elska náttúru landsins og kunna með búfé (Forseti hringir.) að fara, hæstv. forseti, sem framleiða að auki þær frábæru vörur sem nú eru á borðum íslenskra neytenda.