Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:51:17 (6335)

2001-04-04 14:51:17# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mér finnst það liggja ljóst fyrir að þau lög sem sett voru á verkfall sjómanna eftir að það hafði staðið í rúma þrjá sólarhringa 19. mars sl. var mikið óhappaverk. Stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum orðið til þess að deilan mun dragast á langinn. Mesta deilumálið er enn sem fyrr sú staðreynd að útgerðin, sem ætti að eiga sameiginlega hagsmuni með sjómönnum í frjálsri verðmyndun á fiskmarkaði, vill alls ekki að frelsi markaðarins ráði fiskverði hér á landi.

Nágrannaþjóðir okkar hafa náð miklum þjóðhagslegum ávinningi af frjálsri verðmyndun á fiskmarkaði. Í því sambandi nægir að vitna til næstu nágranna okkar, Færeyinga. Þar hafa mál þróast þannig að færeyskir sjómenn hafa tvöfaldað árlegt aflaverðmæti sitt frá árinu 1996 og meira en þrefaldað það frá árinu 1993. Aflaverðmæti ársins í fyrra var heilum 58% yfir meðalverði árlegra aflaverðmæta frá 1993--1999.

Meðalverð á öllum botnfiski sjómanna í Færeyjum var þá 120 ísl. kr. á kg. Það er 39% hærra að meðaltali en síðustu sjö ár þar á undan. Færeyingar reyndu að nota kvótakerfið en köstuðu því fyrir róða þar sem þeir töldu það ónothæft vegna kvótasvindls og brottkasts. Veiðar og vinnsla eru aðskilin og allur fiskur sem berst á land fer á uppboðsmarkað. Eiginfjárstaða útgerðarinnar er talin mjög sterk og litlar skuldir hvíla á flotanum. Velgengni í útgerðinni virðist skila sér í Færeyjum. Þar er vaxandi velmegun.

Hér snýst deilan um það hvort þeir sem hafa kvótann geti ekki áfram selt sjálfum sér aflann á hálfvirði miðað við það sem frjáls verðmyndun markaðar gefur af sér. Er ásættanlegt að sjómenn eigi að semja um það hvað stórútgerðarmennirnir, sem jafnframt eru fiskverkendur, eigi að greiða sjálfum sér í auðlindarentu af hverju kílói kvótans? Forsrh. berast nú mótmæli víða að úr heiminum frá frjálsum verkalýðsfélögum sem mótmæla endurteknum lagainngripum stjórnvalda á Íslandi. Sjómenn verða að fá frið til samninga en ríkisstjórnin hefur tafið lausn deilunnar.