Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:53:33 (6336)

2001-04-04 14:53:33# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það var kominn tími til þess að hið háa Alþingi eignaðist drottin allsherjar. Hæstv. sjútvrh. kemur hingað og talar eins og hann sé guð almáttugur. Hann ætlar að leitast við að gefa deiluaðilum tíma og segir meira segja hér um bil hve langan tíma hann ætlar að gefa þeim, svona um það bil viku. Það mátti skilja af orðum hæstv. ráðherra. Þegar því er lokið ætlar hann reyndar að skikka þá til og kjósa mönnum örlög, nema að í þessu tilviki er það bara öðrum aðilanum sem hann ætlar að kjósa örlög, þ.e. sjómönnunum. Þannig hefur það alltaf verið.

Árum saman hafa sjómenn mátt búa við að ráðherrar Sjálfstfl., þ.e. stjórnvöld, grípi inn í deiluna. Um leið liggur fyrir að útgerðarmenn geta gengið að því sem vísu að þeir þurfi ekki að ná samningum, þeir þurfi ekki að ganga að samningum við sjómenn. Þá skapast umhverfi sem örvar menn ekki til þeirrar ábyrgðar sem felst í því að ná samkomulagi. Það er þetta óholla umhverfi sem er verið að skapa með þessari vinnuaðferð.

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að hæstv. ráðherra tali skýrt. Við skulum ekki gleyma því að þegar menn gengu til þess að setja lög um daginn þá sögðu hæstv. ráðherrar, m.a. hæstv. sjútvrh., að málin væru komin það langt að það þyrfti ekki nema pínulítið í viðbót og þess vegna væri verkfallinu frestað til þess að hægt væri að gera mönnum kleift að ljúka málinu.

Það hefur síðan komið fram hjá talsmönnum sjómanna að þetta hafi verið eins og sandur í gangverkið, að þetta hafi verið óhappaverk sem hafi orðið til þess að tefja málið. Nú lýsir hæstv. sjútvrh. því nánast yfir að ef menn verði ekki búnir að ganga frá þessu máli innan tilölulega skamms tíma þá muni hann aftur hlutast til um deiluna í formi lagasetningar.

Herra forseti. Það er ákaflega óheppileg íhlutun af hæstv. ráðherra.