Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:55:47 (6337)

2001-04-04 14:55:47# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það er fullkomin ástæða til að hið háa Alþingi ræði kjaramál sjómanna og kjaradeilu þeirra sem í raun er meira en áratugargömul án viðunandi lausnar. Hún er óvenjuhörð, viðkvæm og nær til fjölþættra deiluefna.

Þessi harða deila sem stjórnvöld hafa því miður oft séð sig tilknúin að grípa inn í er enn á borðinu og fjölmargir deiluaðilar hafa tjáð sig með mismunandi hætti, sérstaklega um inngrip stjórnvalda sem ég verð að segja að ástæða hafi verið til í gegnum tíðina. Þegar mikilvægasta atvinnugrein landsmanna er stöðvuð með kjaradeiluaðgerðum þá hljóta stjórnvöld að vega og meta hvað sé til lausnar þeim vanda, sem þá steðjar ekki aðeins að greininni sjálfri heldur líka öðrum greinum og stórum hluta byggðanna við sjávarsíðuna. Þessi grein er stærsti viðskiptaaðili nær alls iðnaðar í þessum byggðum þannig að undir liggur atvinnuöryggi nær allra sem þar búa, ekki aðeins sjómanna sjálfra en öryggi þeirra hvílir einnig á rekstraröryggi sjávarútvegsins.

Auðvitað er það á ábyrgð deiluaðila að ná samkomulagi. Þeir þurfa til þess ráðrúm en því miður hefur ráðrúm undanfarins áratugar og meira til ekki dugað. Það er bara staðreynd og það er á ábyrgð ráðherra að skapa almenn og góð skilyrði fyrir þessa starfsgrein, samkeppnishæf skilyrði og kjör til að bjarga verðmætum fyrir þjóðarbúið og forða þannig landsmönnum frá efnahagslegu tjóni.

Hins vegar er ljóst af þessari deilu, herra forseti, og hefur raunar blasað við nokkuð lengi, að deiluaðilar verða sjálfir að eiga hlut að því að skapa betri farveg til að leysa hana. Hún er ekkert nýmæli og hefur staðið meira en áratug eins og ég hef sagt. Þeir hljóta sjálfir að móta lausnina og bera ábyrgð á henni.