Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:57:55 (6338)

2001-04-04 14:57:55# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður að segjast að þessi mál eru í ákaflega ógæfulegum farvegi og ekki hefur ástandið skánað við þessa umræðu í dag og ræðu hæstv. ráðherra. Það er harla ónotalegt að heyra hæstv. ráðherra tala um verkfall sjómanna og verkfallsrétt þeirra í ljósi þess að hér á í hlut stétt sem hefur samnings- og verkfallsrétt. Í orðum hæstv. ráðherra lá að sá réttur væri sérstaklega takmarkaður við íslenskar aðstæður. Það að tala jafnvel um tímalengdina sem það sé þolandi fyrir þjóðarbúið að þessi stétt njóti réttar síns, að mega leggja niður vinnu til að þrýsta á um kröfur sínar um að við þá sé samið um kaup og kjör, er mjög hættulegur málflutningur.

Ég held að hæstv. sjútvrh. verði að átta sig á því að annaðhvort hafa menn þessa stöðu á vinnumarkaði, samnings- og verkfallsrétt sem er lögvarinn og mjög helgur réttur, eða ekki. Menn verða að koma kjaramálum einstakra hópa í samfélaginu fyrir með öðrum hætti ef þeir telja stöðu þeirra þannig að það gangi ekki upp að þeir hafi þennan rétt. Í reynd var hæstv. ráðherra að segja að réttur sjómanna væri takmarkaður af því að verkfall mætti aldrei standa nema skamman tíma, þjóðarbúið þyldi það ekki. Hvað er verið að gera með slíku tali? Það er auðvitað verið að slæva þetta vopn sjómanna og fullvissa viðsemjendur þeirra um að þeir geti bara hallað sér aftur á bak, dregið andann rólega um skeið og þá komi ríkisstjórnin, setji lög og skeri þá niður úr snörunni.

Þetta eru auðvitað óþolandi aðstæður, herra forseti. Maður hefur það ónotalega á tilfinningunni að þau öfl muni hafa sitt fram eins og oft áður sem vilja óbreytt ástand og hagnast á því, eru í skjóli af ríkisvaldinu og meiri hluta þess á Alþingi, að gamla sagan sé að endurtaka sig einu sinni enn.