Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 15:02:26 (6340)

2001-04-04 15:02:26# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Verkfallsrétturinn var á öndverðri síðustu öld neyðarréttur fátæks fólks til að ná fram bættum kjörum. Til að tryggja hann voru sett í lög alls konar ákvæði, m.a. um að aðilar beri ekki ábyrgð á tjóni þriðja aðila vegna verkfallsátaka. Þannig eiga námsmenn ekki kröfu þó þeir hafi tapað heilu ári í síðustu verkfallsdeilum, ferðafólk á ekki kröfurétt þó það missi af vélinni sinni vegna verkfalls o.s.frv.

Verkfallsrétturinn er stórlega misnotaður í dag. Þær stéttir fá hæst laun sem valda þriðja aðila mestu tjóni. Herra forseti, ég endurtek: Þær stéttir fá hæst laun sem valda þriðja aðila mestu tjóni. (Gripið fram í: Hverjir eru það?) Dæmi: Flugmenn, flugumferðarstjórar, læknar og þvíumlíkir. (Gripið fram í.) Þetta er í raun ofbeldi, löglegt ofbeldi. Lágtekjufólki nýtist þessi réttur ekki lengur. Verkfallsrétturinn er úreltur. Hann er úreltur, herra forseti.

Sú deila sem við hér ræðum er ekki deila lágtekjufólks við óbilgjörn fyrirtæki. Sjómenn eru reyndar með mjög mismunandi kjör en margir eru með mjög góð laun. Sumir eru reyndar með afar góð laun, t.d. skipstjórar, og þeir eru í verkfalli, herra forseti. Menn með afar góð laun.

Þolendur þessarar deilu eru sveitarfélög og íbúar þeirra víða á landsbyggðinni, sérstaklega starfsfólk í frystihúsum, aðallega konur með miklu lægri laun og ekki sjómannaafslátt.

Varðandi þessa deilu þá held ég sé mjög brýnt að aðilar deilunnar sjái siðferðilegan sóma sinn í að ljúka henni sem fyrst og hætta að valda þriðja aðila þvílíku tjóni sem þeir hafa gert hingað til. Það er á þeirra ábyrgð að ná niðurstöðu.