Staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 15:06:54 (6342)

2001-04-04 15:06:54# 126. lþ. 106.94 fundur 452#B staðan í vinnudeilum sjómanna og LÍÚ# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Eftir að hafa hlustað á þessa umræðu gæti maður haldið að hluti þeirra ræðumanna sem hér hafa talað hafi aldrei nálægt kjaradeilum komið og aldrei nálægt afskiptum opinberra aðila að kjaradeilum komið, hvorki með lagasetningu né öðru. Alla vega virðast þeir búnir að gleyma því, hafi þeir einhvern tímann verið svo óheppnir að þurfa að standa í slíku.

Hv. þm. tala um að ráðherrann þurfi að tala skýrar. Ég skal reyna það. Ég skal reyna að tala skýrar en ég efast um að það dugi þeim. Ég er hræddur um að þeir vilji ekki að ég tali skýrar. Þeir vilja bara að ég segi eitthvað annað. Það kom einmitt ágætlega fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Hann lýsti nákvæmlega afstöðu sem ég held að sé hin sama hjá fleiri hv. þm., kannski frekar í hans þingflokki en öðrum. Hann sagði einmitt að deiluaðilar mundu ekki leysa deiluna og það þyrfti að leysa deiluna á Alþingi.

Þátttaka þeirra hv. þm., sem segja slíkt í umræðunni í því skyni að notfæra sér deiluna, er í pólitískum tilgangi, til þess að gera breytingar á stjórnkerfinu en ekki til þess að leysa deiluna. Þeim er alveg sama um deiluaðilana. Þeim er sama um atvinnugreinina. Þeim er alveg sama um áhrif verkfallsins á þjóðarbúið. Þeir vilja bara koma á breytingum á stjórnkerfinu. Það er það sem þeir vilja.

Ég skal segja ykkur það og skal reyna að tala skýrar: Ég vil ekki hafa afskipti af þessari deilu. Ég hef engar áætlanir um að gera það. Síðan verðum við bara að sjá hvort ég verð svo lukkulegur að fá þá ósk mína uppfyllta.