2001-04-04 15:32:22# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Skýrsla samkeppnisráðs um ólögmætt samráð og ólöglegar samkeppnishömlur dreifingarfyrirtækja á grænmetismarkaðnum er ákaflega harður áfellisdómur yfir þeim viðskiptaháttum sem þar eru hafðir í frammi. Samkeppnisráð fullyrðir beinlínis að þrjú dreifingarfyrirtæki hafi gerst sek um samsæri gegn hagsmunum neytenda sem þurfa fyrir vikið að greiða mun hærra verð en ella fyrir grænmetið. Upplýsingar sem Samkeppnisráð hefur birt úr fundargerðum fyrirtækjanna eru raunar miklu líkari söguþræði úr erlendri B-mynd en íslenskum veruleika. Gönguferðir í Öskjuhlíð sem ekki má segja frá. Fundir þar sem lagt er á ráðin um hvernig kaupa megi út samkeppnina og loks ótrúlegar fullyrðingar um að allt skuli gert til að hysja upp verðið, eins og það er svo smekklega orðað. Þetta segir í raun allt sem segja þarf.

En, herra forseti, skýrslan er líka áfellisdómur yfir stjórnvöldum, ekki síst landbrn. Samkeppnisráð segir nefnilega hreint út að framkvæmd ráðuneytisins á tollaákvæðum hafi auðveldað þessum fyrirtækjum að hafa með sér ólögmætt samráð í því skyni að halda uppi háu grænmetisverði. Hér er hátt reitt til höggs og hæstv. landbrh. þarf auðvitað svara fyrir þetta.

Þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var lögfestur og þegar samningurinn sem kenndur var við GATT/Úrúgvæ var síðan gerður þá var búið svo um hnútana að dregið var úr beinum innflutningshömlum en þess í stað skyldu tollar vernda innlenda framleiðslu. Það var jafnan gert ráð fyrir því að þessir tollar færu lækkandi og samhliða yrði innlendum framleiðendum að sjálfsögðu gert kleift að búa sig undir aukna samkeppni.

Herra forseti. Það blasir hins vegar við að tollarnir hafa ekkert lækkað frá gildistöku GATT/Úrúgvæ-samningsins og að a.m.k. til skamms tíma stóð heldur ekki til að svo yrði gert. Þannig svarar landbrn. fyrirspurn frá september sl. frá Samkeppnisstofnun í þá veru að ekki sé vitað til þess að fyrirhugaðar séu neinar breytingar á núverandi tollafyrirkomulagi. Hæstv. ráðherra hefur að vísu komið fram sem iðrandi syndari í fjölmiðlum dagsins í dag og það er augljóst að hann veit upp á sig sökina og hann vill breyta.

Herra forseti. Þetta hefur valdið því að verðlag á grænmeti hér á landi hefur ekki aðeins verið hærra en í helstu samanburðalöndum okkar heldur hefur það hækkað mun meira en í Evrópulöndunum. Reyndar er það þannig þegar þróunin á tímabilinu 1993--2000 er skoðuð að í ljós kemur að smásöluverðlag á flestum tegundum grænmetis hefur hækkað umtalsvert meira en sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs. Hvernig getur hæstv. landbrh. varið þetta? Ætlar hann að verja þetta? Hver er skýring hans á þessu?

Það þarf ekki að segja hæstv. ráðherra frá því að grænmeti er einhver hollasta fæða sem um getur. Stöðugt eru að koma fram nýjar og nýjar rannsóknir sem segja að aukin neysla grænmetis getur bægt ákaflega mörgum alvarlegum velferðarsjúkdómum frá dyrum okkar. Staðreyndin er hins vegar sú að verðlagið stýrir neyslunni. Þetta háa verð gengur þess vegna að sjálfsögðu þvert á þá manneldisstefnu sem hæstv. ríkisstjórn, sem hæstv. ráðherra situr í, hefur rekið. Fyrir vikið er staðan sú að Íslendingar neyta miklu minna af grænmeti en Norðurlandaþjóðirnar. Norðmenn neyta t.d. 44% meira en við, Finnar 52% meira og Svíar 65% meira.

Það sem er þó alvarlegast þennan þátt er sú staðreynd að frá því GATT/Úrúgvæ-samningurinn tók gildi þá hefur neysla Íslendinga á grænmeti staðið í stað, þ.e. frá árinu 1995. Það segir auðvitað sína sögu um áhrif þessa máls á neysluvenjur og hollustu mataræðis Íslendinga. Öll manneldissjónarmið eru þverbrotin með þessari stefnu. Það sem meira er, bændurnir, þeir sem rækta grænmetið, hafa ekki fengið meira í sinn hlut. Það eru dreifingarfyrirtækin fyrst og fremst sem í skjóli túlkunar ráðuneytisins á tollaákvæðum hafa tekið allan ávinninginn til sín.

Herra forseti. Þessi fyrirtæki hafa 90% af markaðnum í hendi sér og þess vegna verður alltaf ákaflega erfitt að koma í veg fyrir einokunarviðleitni á markaði sem er í höndum svo fárra fyrirtækja ef svo má segja. Langbesta ráðið til þess er þess vegna að auka samkeppnina með því að fara að hinni upphaflegu stefnu og draga úr þessari óhóflegu tollavernd á innfluttu grænmeti.

Í ljósi þeirra viðhorfa sem ég hef rakið hér úr skýrslu Samkeppnisstofnunar þá vil ég ljúka ræðu minni með því að spyrja hæstv. ráðherra:

Er hann sammála því mati samkeppnisráðs að verndartollar hafi auðveldað ólögmætt samráð fyrirtækja um að halda uppi grænmetisverði?

Er hann sammála því að hið ólögmæta samráð hafi dregið úr grænmetisneyslu og þannig gengið þvert á opinber manneldissjónarmið?

Að síðustu: Hvenær hyggst hann verða við tilmælum samkeppnisráðs um að beita sér fyrir endurskoðun lagaákvæða sem varða innflutning á grænmeti í því skyni að efla samkeppni og lækka verð á grænmeti til neytenda?