2001-04-04 15:43:18# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Út er kominn úrskurður Samkeppnisstofnunar um ólögmætt samráð og samkeppnishömlur fyrirtækja á grænmetis-, kartöflu- og ávaxtamarkaði hér á landi. Rannsóknin nær nokkur ár aftur í tímann og nær því yfir þær breytingar sem orðið hafa í rekstri og samruna innflutnings- og dreifingarfyrirtækja með grænmeti og ávexti. Í ljós hefur komið að ótrúlegir viðskiptahættir hafa viðgengist bæði milli fyrirtækjanna, milli fyrirtækjanna og stóru verslanakeðjanna í matvöruverslun og ekki síður milli fyrirtækjanna í dreifingu og garðyrkjubænda.

Helstu niðurstöður úrskurðarins eru mikill áfellisdómur yfir viðskiptaháttum dreifingaraðilanna en mest er áfallið fyrir neytendur og garðyrkjubændur. Úrskurðurinn er einnig stór skellur fyrir manneldisstefnu okkar, þar sem mikil hvatning hefur verið til meiri neyslu á grænmeti og ávöxtum.

Herra forseti. Í framhaldi af þessari rannsókn og úrskurði Samkeppnisstofnunar tel ég því mjög brýnt að þegar verði rannsakað samband og viðskiptahættir milli dreifingaraðila og smásöluaðila. Samþjöppun í smásöluverslun hefur einnig skapað fákeppni. Þar sem einokun ríkir nánast í matvöruversluninni má leiða líkur að því að samkeppnisstaða matvöruverslana núna hafi einnig haft óeðlileg áhrif á viðskiptahætti gagnvart öðrum viðskiptavinum en dreifingaraðilum í grænmetis-, kartöflu- og ávaxtamarkaði. Rannsókn og úrskurðir Samkeppnisstofnunar kalla á frekari rannsóknir, m.a. á verðmyndun grænmetis frá framleiðanda til neytenda. Eins verður að skoða rekstrarumhverfi garðyrkjubænda og hvort það sé sambærilegt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.