2001-04-04 15:51:28# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þetta mál snertir bæði landbúnað sem atvinnugrein og einnig hvaða skipulag á að viðhafa við dreifingu og sölu á afurðum. Íslenskur landbúnaður býr að sumu leyti við sérstöðu sem er eðlilegt að njóti nokkurrar verndar. Við þurfum að hafa atvinnugrein sem getur framleitt vöru fyrir þjóðina og við þurfum að hafa öflugar reglur sem koma í veg fyrir að sjúkdómar og annað berist til landsins sem við höfum verið lausir við. Að öðru leyti hljótum við að þurfa að styðjast við það skipulag sem best hefur reynst í gegnum tíðina, samkeppni og markaðslögmál. Við getum ekki beitt verndartollum sem skálkaskjóli til að okra á neytendum. Það er algjörlega ólíðandi. Hæstv. landbrh. hefur mikinn stuðning meðal stjórnarliða í þeim áformum sínum að gera breytingar á að þessu leyti.

Herra forseti. Ég tel að stjórnvöld verði að líta mjög alvarlega til þess að þarna hefur brugðist það sem við ætluðum að láta ganga samkvæmt lögmálum markaðarins hvað varðar dreifingu og smásölufyrirkomulag. Það þarf að líta á þá hluti í ljósi fákeppni og stórra eininga sem skapast hafa á þessu sviði eins og í mörgum öðrum atvinnugreinum og við höfum verið sammála um að rétt væri að koma í veg fyrir, því samkeppnin væri það afl sem skilaði neytendum bestu verði til lengri tíma.