2001-04-04 15:57:36# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Enn og aftur hefur Samkeppnisstofnun afhjúpað svikamyllu og samsæri gegn neytendum í þessu landi. Samkeppnisstofnun, sama stofnun og Sjálfstfl., stærsti flokkur þjóðarinnar, hefur haldið fram að hafi allt of mikil völd og þurfi að draga úr völdum og áhrifum hennar, og helst að leggja hana niður. Þeir hafa haldið málþing þess efnis.

Herra forseti. Samkeppnisstofnun er á sett til að styrkja og styðja við raunverulega og virka samkeppni í landinu. Það hefur verið stefna okkar jafnaðarmanna að styrkja hana og efla. Við erum enn sannfærðari í þessari trú okkar. Það liggur einfaldlega fyrir nú að lyktum að neytendur í landinu eiga inni tugi ef ekki hundruð milljóna hjá söluaðilum og ríkisstjórn þessa lands. Það er of seint að iðrast eftir dauðann. Það er of seint að koma nú og viðurkenna að ofurtollar hafi verið við lýði í landinu um nokkurra ára skeið þrátt fyrir að við höfum undirritað samninga í aðra veru.

Því spyr ég, að fenginni reynslu: Hvað eiga þeir við, hæstv. landbrh. og málsvari Sjálfstfl. við þessa umræðu þegar þeir tala um að það eigi að skoða það að lækka þessa ofurtolla? Ég spyr: Hvenær og hvernig? Ég vil hispurslaus svör. Það gengur ekki lengur að hæstv. landbrh. komi í hverja umræðuna á fætur annarri þegar á bjátar og bent er á að margt megi betur fara í málefnum landbúnaðarins og segi: Ekki ég, ég er stikkfrí, það eru einhverjir aðrir menn annars staðar. Ábyrgðin er mikil hjá honum og við viljum að hann kannist við hana. Því spyr ég: Hvenær og hvernig?