2001-04-04 15:59:37# 126. lþ. 106.95 fundur 453#B viðbrögð stjórnvalda við áliti samkeppnisráðs um ólögmætt samráð á grænmetismarkaði# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Spurningin sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spurði áðan er lykilspurningin. Það var einmitt spurningin sem ég spurði í fyrstu ræðu minni. Ég spurði hæstv. landbrh.: Hvenær ætlar hann að beita sér fyrir breytingum á lögum til þess að hægt sé að lækka tolla og þar með lækka verð á grænmeti? Ég spyr vegna þess að hæstv. landbrh. hefur ekki aðeins komið hingað inn í sali hins háa Alþingis heldur í flesta fjölmiðla, grátið krókódílstárum og sagt: Ég iðrast -- sjá ég er aumur syndari -- ég ætla að gera betur í framtíðinni. Hæstv. landbrh. hefur sagt það að honum hafi orðið á mistök og hann vilji gera betur.

Herra forseti. Það er hins vegar svo að þetta er ekki í fyrsta skipti sem hæstv. landbrh. segir það. Hann sagði þetta líka í fyrra. Þá kom hann og gaf yfirlýsingu gagnvart þjóðinni um að hann ætlaði að beita sér fyrir því að það yrði með einhverjum hætti hægt að lækka verð á grænmeti. Hann smokraði því fram af sér, alveg eins og hæstv. landbrh. virðist reyna að gera núna.

Það sem skiptir hins vegar máli, herra forseti, er að hver einasti þingmaður sem hér hefur talað, hver einasti stjórnarliði sem hér hefur talað og hver einasti stjórnarandstæðingur sem hér hefur talað, hefur lýst því yfir að það sé ákaflega nauðsynlegt að vinda sér skjótt í að breyta þessum lögum til að afnema það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks Framsfl., kallaði okurtolla.

Ég held, herra forseti, að ekki þurfi frekari vitna við. Það er bara einn maður hér inni sem á eftir að lýsa sinni skeleggu og einbeittu afstöðu. Það er hæstv. landbrh. Allir aðrir hafa talað skýrt. Nú er komið að því að hæstv. landbrh. standi við stóru orðin, komi í þennan stól og lýsi yfir, ekki hvort, heldur hvenær hann ætlar að hefja endurskoðun á þessum lögum og hvenær íslenskir neytendur megi búast við að geta keypt hollustufæði eins og grænmeti á bærilegu verði.