Þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:32:17 (6356)

2001-04-05 10:32:17# 126. lþ. 107.91 fundur 454#B þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins þar sem þannig háttar til að ég er ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni flm. að þáltill. um endurskoðun á starfsemi Þjóðhagsstofnunar. Nú er það mál mjög í brennidepli sökum þeirra fáheyrðu atburða sem orðið hafa í samskiptum forsrh. og þeirrar stofnunar og hugmynda hans um að leggja hana einhliða niður með tilskipunum. Ég óskaði þar af leiðandi eftir því að þetta þingmál fengi að koma á dagskrá í vikunni og fá umræður þannig að í leiðinni gæfist kostur á að ræða almennt um það málefni og eftir atvikum að eiga skoðanaskipti við hæstv. forsrh. þar um. Mér var síðan í gær borin sú niðurstaða að því miður yrði ekki unnt að verða við beiðni minni og þykir mér það miður.

Ég beini því til forseta þingsins að hugleiða hvort ekki sé slæmt að skapa þær venjur hér að þingmál séu í raun og veru víkjandi þegar svona aðstæður koma upp og það ýti mönnum út í það að biðja frekar um utandagskrárumræðu heldur en flytja þingmál vegna þess að þau fást ekki tekin fyrir jafnvel þó að viðkomandi málefni séu mjög brennandi eins og hér háttar til. Því er, herra forseti, nauðsynlegt að þetta fáist rætt á þinginu.

Það er auðvitað algerlega fráleitt að hæstv. forsrh. geti einhliða og án lagabreytinga á Alþingi eða samráðs við Alþingi náð fram vilja sínum í þessum efnum. Þannig háttar til fyrir það fyrsta að um Þjóðhagsstofnun gilda sérstök lög sem fela henni víðtæk verkefni, þar á meðal verkefni sem tengjast öðrum aðilum en forsrn., svo sem eins og Alþingi og aðilum vinnumarkaðarins. Í desember voru afgreidd fjárlög þar sem Þjóðhagsstofnun fær hátt í 130 millj. kr. til rekstrar á þessu ári án nokkurs fyrirvara um að til stæðu breytingar á rekstri hennar innan fjárlagaársins. Það er því alveg sama hvernig á þetta er litið, herra forseti, þetta gengur ekki svona.

Ég óska því eftir því að forseti beri þær óskir til hæstv. forsrh. að engar frekari ákvarðanir verði teknar eða aðgerðir framkvæmdar sem tengjast Þjóðhagsstofnun fyrr en þetta mál hafi fengst hér rætt og að forseti beiti sér fyrir því að tillagan fái að koma á dagskrá strax eftir páska og málið bíði þá þangað til.