Þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:34:44 (6357)

2001-04-05 10:34:44# 126. lþ. 107.91 fundur 454#B þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), Forseti GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Forseti (Guðjón Guðmundsson):

Vegna athugasemdar hv. þm. vill forseti taka fram að í gær barst ósk um það frá flutningsmönnum að þetta mál yrði hér á dagskrá í dag eða á morgun. Skapast hefur sú venja að þingmannamál eru á dagskrá í þeirri röð sem þau hafa borist inn í þingið. Þessu máli var dreift í þinginu í fyrradag, 3. apríl. Hér bíða 1. umr. þingmannamál sem höfðu borist áður, alls 51, og venjan er að víkja ekki mikið frá þeirri röð nema þegar í hlut eiga varaþingmenn sem fá að mæla fyrir sínum málum meðan þeir sitja á þinginu.

Forseti vill einnig minna á að á fundi þingflokksformanna á mánudag var einróma samkomulag um starfsáætlun vikunnar þar sem á áætlun var á mánudag og þriðjudag mikill fjöldi þingmannamála, á miðvikudag fyrirspurnir en á fimmtudag og föstudag yrðu síðan stjórnarfrv. og mál frá nefndum. Um þetta var algert samkomulag og við það verður að sjálfsögðu staðið.