Þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:35:50 (6358)

2001-04-05 10:35:50# 126. lþ. 107.91 fundur 454#B þingsályktunartillaga um Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:35]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Samfylkingin hefur mótmælt því harkalega með hvaða hætti hæstv. forsrh. hefur þjösnast á Þjóðhagsstofnun og starfsmönnum hennar. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er sannarlega þörf á því að ræða þetta mál fyrr en seinna. Ég virði fyllilega þau viðhorf sem hæstv. forseti hefur tjáð hér á forsetastóli. Hann lætur þess getið, upplýsir þingið um að full samstaða hafi verið í byrjun vikunnar að haga starfi þingsins eftir tiltekinni áætlun. Með því er hann í reynd að segja að þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðunnar hafi fallist á ákveðna verkáætlun. Það er rétt.

En síðan gerist það í vikunni að hæstv. forsrh. lýsir því yfir að hann hyggist brjóta í reynd lög með því að flytja verkefni frá stofnuninni með því að leggja hana í reynd niður, án þess að það mál komi fyrir Alþingi. Það er ákaflega alvarlegt.

Það vill svo til, herra forseti, að í gildi eru lög um Þjóðhagsstofnun. Í þau lög eru bundin sérstök ákvæði um hvaða verkefni stofnunin á að vinna. Það er því ekki hægt að flytja slík verkefni frá stofnuninni nema að breyta lögum. Þegar hæstv. forsrh. eða starfsmenn hans gefa það til kynna opinberlega að í reynd eigi að flytja verkefni frá stofnuninni, flæma starfsfólkið í burtu og skilja stofnunina sjálfa eftir sem tóma og dauða skel, þá er hann að lýsa því yfir að hann hyggist brjóta lög. Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt að stjórnarandstaðan fari þess á leit að málið verði tekið upp. Ég tek þess vegna undir ósk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.