Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn (fjármálaþjónusta)

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 10:52:52 (6366)

2001-04-05 10:52:52# 126. lþ. 107.2 fundur 639. mál: #A breyting á IX. viðauka við EES-samninginn (fjármálaþjónusta)# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[10:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er með sama hætti leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 4/2001, um breytingu á IX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/26/EB frá 16. maí árið 2000, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og breytingar á tilskipunum ráðsins nr. 73/239 og 88/357.

Gerð er grein fyrir efni þessarar ákvörðunar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri gerð sem um ræðir.

Þessi ákvörðun kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Ég hef áður, herra forseti, gert grein fyrir því hvaða rök liggja að baki þeirri málsmeðferð sem hér er viðhöfð og vísa ég til orða minna fyrr í dag í því sambandi.

Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu að vísa til greinargerðar er fylgir tillögunni auk gerðanna sjálfra. Þess skal þó getið að tilgangur tilskipunarinnar er að setja sérákvæði vegna tjónþola sem á rétt á skaðabótum, vegna atviks í öðru aðildarríki en því þar sem hann býr, af völdum ökutækis sem vátryggt er og skráð í aðildarríki.

Aðildarríkjum er ætlað að tryggja að tjónþoli geti höfðað mál beint á hendur því vátryggingafélagi sem vátryggt hefur þann sem ábyrgð ber.

Aðildarríkjum er ætlað að sjá um að í hverju landi sé til upplýsingaskrifstofa sem, í því skyni að tjónþoli geti leitað bóta, hafi upplýsingar um skráningarnúmer ökutækja, númer vátryggingarskírteina, vátryggingafélög, ökutæki sem eru undanþegin vátryggingarskyldu og hver annist uppgjör tjóna vegna þeirra o.fl., eða sjái um söfnun og miðlun slíkra upplýsinga, og aðstoði þá sem eiga rétt til þess við að fá aðgang að upplýsingum.

Jafnframt er mælt fyrir um að í hverju aðildarríki skuli vera tjónakröfuskrifstofa sem tjónþolar geta lagt fram kröfu hjá ef tjónakröfu er ekki sinnt innan þriggja mánaða eða ef tjónafulltrúi hefur ekki verið tilnefndur.

Fyrri tilskipanir á þessu sviði hafa verið teknar upp í EES-samninginn.

Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í dómsmrn. en nauðsynlegt reynist að gera breytingar á umferðarlögum vegna þessa máls.

Samkvæmt tilskipuninni skal efni hennar koma til framkvæmda á EES-svæðinu eigi síðar en 20. janúar 2003.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.