Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:17:41 (6374)

2001-04-05 11:17:41# 126. lþ. 107.8 fundur 656. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:17]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að þetta hafi verið slæmir samningar fyrir Ísland. Ég tel að í ljósi aðstæðna hafi þetta verið góðir samningar og okkur hafi tekist að tryggja að veiðar úr þessum stofni yrðu takmarkaðar með eðlilegum hætti. Auðvitað má lengi deila um það hvað skuli koma í hvers hlut. Norðmenn og Rússar reyndar líka hafa verið einir um það lengi að veiða úr þessum stofni og við höfum lagt mjög mikla áherslu á að tryggja uppbyggingu hans og að síðan kæmi til samninga á nýjan leik þegar sú uppbygging hefði verið tryggð.

Ég tek undir það með hv. þm. að það eru vonbrigði að ekki skuli hafa verið fylgt algerlega ráðgjöf vísindamanna. Við höfum barist fyrir því af miklu kappi. Ég vona eins og ég sagði áður að þeirri ráðgjöf verði fylgt á næstu árum eins og við höfum vilyrði fyrir. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það er besta tryggingin fyrir því að stofninn nái eðlilegri stærð og vísindamenn gera þessa tillögu í ljósi þess að stofninn vaxi og þá sérstaklega elsta síldin, en það er sú síld sem mun fyrst og fremst leita inn á Íslandsmið. Því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur að þessi síld verði ekki öll sömul drepin áður en hún getur gengið inn í íslenska lögsögu þannig að ég er alveg sammála hv. þm. um það. Það eru þær áherslur sem við höfum haft í þessum samningaviðræðum.