Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 11:21:51 (6376)

2001-04-05 11:21:51# 126. lþ. 107.8 fundur 656. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 2001# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessi stofn er ekki í neinni hættu. En það er rétt hjá hv. þm. að við höfum verið að veiða of mikið úr honum og þess vegna er mikilvægt að við fylgjum þessari ráðgjöf sem við erum alveg sammála um og til þess að svo megi verða þarf að draga úr veiðinni. Ef ekki verður dregið úr veiðinni þá erum við að ganga á stofninn. Það er fylgt svokallaðri aflareglu sem er ákveðið hlutfall af stofninum. Mig minnir það vera 20 eða 25%. Ég skal ekki fullyrða um það en ég skal koma slíkum upplýsingum til hv. Alþingis. Ég hef þær ekki með mér. Um þetta liggja fyrir gögn hjá Hafrannsóknastofnun sem ég skal koma til hv. þm. þannig að hann fái fullt yfirlit yfir það. Að sjálfsögðu er líka rétt að það verði lagt fram við meðferð málsins í hv. utanrmn.

Ég heyri það á hv. þm. að hann hefur engan áhuga á að fara að deila um það hvort samningar eru góðir eða slæmir. Við gætum eflaust deilt um það í allan dag. (Gripið fram í.) Þetta eru gerðir samningar og það þýðir ekkert að deila um þá. Ég taldi mikilvægt þegar ég kom í utanrrn. á sínum tíma að leysa þau stóru mál sem þar voru uppi, bæði varðandi síldina og svokölluð Smugumál. Það voru afskaplega erfiðir samningar og tóku mörg ár og var mikið fyrir þeim haft sem var eðlilegt eins og í öllum öðrum stórmálum. Ég tel að sú niðurstaða sem fékkst í þessum málum hafi verið algerlega viðunandi fyrir hagsmuni Íslands. Það er líka mikið hagsmunamál Íslendinga að bærilegur friður ríki um nýtingu fiskstofna á Norður-Atlantshafi.