2001-04-05 11:24:01# 126. lþ. 107.9 fundur 657. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2001# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[11:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2001 sem gengið var frá með orðsendingaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 12. febrúar og 2. mars 2001.

Þetta mál er hv. þm. mjög kunnugt enda hefur þessi skipan mála verið milli þjóðanna í mjög langan tíma.

Samkvæmt þessum samningi munu aðilar semja fyrir 20. júní 2001 um veiðiheimildir færeyskra nótaskipa á loðnuvertíðinni sem stendur frá þeim degi til apríl 2001. Er eins og í samningi landanna frá í fyrra við það miðað að veiðiheimildir færeyskra nótaskipa á þessu tímabili verði um 30 þúsund lestir enda breytist forsendur varðandi leyfðan heildarafla og önnur atriði er máli skipta ekki í verulegum atriðum.

Í samningnum er eins og í samningi aðila frá fyrra ári kveðið á um að færeyskum skipum sé heimilt á loðnuvertíðinni 2001/2002 að veiða allt að 10.000 lestir af loðnu innan lögsögu Íslands úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda.

Samningurinn gerir enn fremur ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til kolmunnaveiða innan lögsögu hins á þessu ári.

Loks er í samningnum staðfest heimild íslenskra skipa til veiða á allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á þessu ári.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að þessari tillögu verði vísað til hv. utanrmn. að lokinni þessari umræðu.