Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 12:39:39 (6391)

2001-04-05 12:39:39# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[12:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Að ég hafi flutt samfelldan óð til eyðslunnar og sé búinn að gleyma því að sparnaður sé dyggð og ráðdeildarsemi eru gjörsamlega ástæðulausir útúrsnúningar hjá hv. þm. Ég veit að vísu að hv. þm. verður það gjarnan fyrir að nálgast hlutina frá þeim sjónarhóli sem hann gerði áðan og hafa litla samúð með þeim sem eru svo vitlausir að taka lán. Ekki fæðast menn með skuldir, sagði hv. þm.

Það sem ég var að ræða hér var í fyrsta lagi að í kerfinu sem hv. þm. er að dásama er mikið misvægi í þeim skilningi að útlán eru í miklu ríkari mæli verðtryggð en innlán. Það er ekki í þágu, í þeim skilningi, þeirra sem eru þá að spara. Oftast er staðan sú að menn hafa ekki aðstöðu til þess að verðtryggja með sama hætti eignir sína og peningalegar eignir eins og þeir neyðast til að sætta sig við verðtryggingu á lánum sínum.

Það sem ég er að tala um í annan stað er að innstæður og útlán séu þá jafnsett. Það er ekki verið að ætlast til þess að þeir sem eiga peninga og hafa sparað séu verr settir en aðrir gagnvart verðtryggingu eða áhættu sem er fólgin í að taka lán eða eiga inni. Það er ekki verið að tala um það. En að menn séu þá jafnsettir í kerfi sem ekki verðtryggir fjármagnið eins og raun ber vitni.

Herra forseti. Það er líka þannig að það er nánast regla að venjulegt fólk þarf á ákveðnu æviskeiði sínu að taka lán, t.d. þegar það er að eignast húsnæði. Telur hv. þm. að ekkert tillit þurfi að taka til þeirra sem eru þannig settir og það eigi eingöngu að hugsa um hina sem eiga nóg af peningum?