Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 13:32:23 (6394)

2001-04-05 13:32:23# 126. lþ. 107.94 fundur 457#B sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Þegar skýrsla Byggðastofnunar var til umræðu fyrir um mánuði brást hæstv. sjútvrh. þannig við umræðunni um byggðaröskun að kvótabraskslögin frá 1990, um frjálst framsal, hefðu haft lítil áhrif til byggðaröskunar í landinu. Þessa fullyrðingu ráðherrans tel ég algert öfugmæli. Væri fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra rökstyðja mál sitt með öðru en fullyrðingum út í loftið. Honum gefst nú tækifæri til þess.

Af sama tilefni sagði ráðherrann að miklu frekar mætti kenna fiskmörkuðunum um fólksflóttann frá sjávarbyggðunum. Frjáls verðmyndun ferskfiskmarkaða endurspeglar verð sem fæst í útflutningi unninnar ferskfiskvöru og gerir fiskvinnslu án kvóta mögulega.

Ég verð að viðurkenna að ég varð kjaftstopp við að hlusta á orð hæstv. sjútvrh. um að ferskfiskmarkaðir, sem eru að færa miklar tekjur til sjávarplássa, væru meira vandamál en kvótabraskskerfið. Kvótinn hefur að mínu viti hrakið hundruð manna úr sjávarbyggðum landsins. Ráðherranum gefst nú kostur á að skýra ummæli sín, leiðrétta þau ef honum varð á í messunni eða rökstyðja orð sín með öðru en fullyrðingum.

Kvótabraskskerfið hefur verið í gildi frá árinu 1990 og valdið miklum vanda fólks víða á landsbyggðinni, t.d. tekjulækkun, atvinnumissi, verðlækkun eigna, tekjufalli hafnar og sveitarsjóða með tilheyrandi vandamálum.

Menn hafa haldið því fram að þessar afleiðingar laga nr. 38/1990 hefðu ekki verið fyrirsjáanlegar. Þetta tel ég að sé ósatt, herra forseti, og með þínu leyfi vil ég vitna í yfirlýsingu Farmanna- og fiskimannasambandsins frá því í janúar árið 1990, áður en Alþingi setti þau lög sem hvað verst hafa reynst byggðum landsins og fólkinu sem byggði undirstöðu sína á fiskveiðum og vinnslu. Hefst nú tilvitnunin:

,,Helsta ástæða fyrir höfnun Farmanna- og fiskimannasambandsins árið 1990 var sú að í frumvarpsdrögunum var gert ráð fyrir sölu á óveiddum fiski sem mundi leiða af sér byggðaröskun, misvægi milli einstakra útgerðarflokka, t.d. báta og togara og aukinn tekjumun milli sjómanna. Þá vill Farmanna- og fiskimannasambandið benda á það ósamræmi í frumvarpinu og reyndar í gildandi lögum um stjórn fiskveiða sem felst í því ákvæði sem segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar á sama tíma og einstakir handhafar veiðiréttar hafa umtalsverðar tekjur af sölu á óveiddum fiski.

Farmannasambandið lýsti eindregnum vilja sínum til að finna lausn á því vandamáli sem sala á óveiddum fiski er í dag og gæti orðið í framtíðinni og var því reiðubúið til að vinna að frekari útfærslum eða hugmyndum sem gætu leitt til farsællar lausnar á því vandasama máli.

Farmanna- og fiskimannasambandið lýsti einnig áhyggjum af því að of lítil umræða og athygli væri á því mikilvæga atriði í frumvarpsdrögunum, sem þá voru til umræðu, og þá sérstaklega um þær afleiðingar sem óheft sala á óveiddum fiski gæti haft í för með sér bæði fyrir einstaklinga og þjóðarbúið í heild.``

Voru þessi orð ekki nógu skýr eða var ekki nógu fast að orði kveðið? Skýrsla Byggðastofnunar frá því í mars sl. staðfestir í mörgu þau varnaðarorð sem sögð voru fyrir meira en áratug. Margir þingmenn hafa á liðnum árum áttað sig á því að lögin um frjálsa kvótaframsalið frá 1990 eru einhver verstu lög sem sett hafa verið á Alþingi og eru tilbúnir að breyta þeim og afnema braskið og færa réttinn aftur til fólksins í sjávarbyggðunum. Engan afturbata er hins vegar að sjá hjá hæstv. sjútvrh. og mörgum stjórnarþingmönnum.

Hæstv. ráðherra minnir í þessu sambandi á frosið tré í þéttum skógi þar sem er ekki nægilegt rými til að skipta um skoðun enda þétt að honum staðið af eintrjáningum stórgreifanna sem telja meira en sjálfsagt að hagræðingin sé aðeins fyrir stórfyrirtækin en á kostnað fólksins í sjávarbyggðunum.

Í skýrslu Byggðastofnunar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ljóst er að ákvæði laganna um frjálst framsal veiðiheimilda hefur haft víðtækar afleiðingar á þróun byggðar í landinu með tilflutningi aflaheimilda á milli landshluta og einstakra byggðarlaga.

Frá árinu 1994 hefur íbúum landsbyggðarinnar fækkað um 4.000 manns samanborið við að íbúum þar fjölgaði um 613 manns næstu þrjú ár á undan.

Samhliða breyttri skiptingu veiðiheimilda á milli landshluta aukast skuldir í sjávarútvegi verulega.

Markmið laga um stjórn fiskveiða er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskistofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``

Herra forseti. Þessi markmið hafa alls ekki komið fram enda veiðar okkar á öllum botnfisktegundum innan lögsögu miklu minni á hverju ári í heilan áratug en áður var og munar þar yfir 200 þúsund tonnum á ári hverju sem við stundum botnfiskveiðar innan lögsögunnar.