Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 13:45:28 (6397)

2001-04-05 13:45:28# 126. lþ. 107.94 fundur 457#B sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir að taka þetta lífsspursmál íslenskra strandbyggða upp utan dagskrár. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða stendur:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``

Þessi skýrsla staðfestir það sem allir vissu fyrir að gjörbreyting hefur orðið á starfsumhverfi íslensks sjávarútvegs á síðustu árum. Svo virðist sem markmið laganna um verndun fiskstofna hafi að hluta náðst en hitt er aftur augljóst að framkvæmd þeirra í reynd hefur leitt til mikils tilflutnings á fiskveiðiheimildum milli byggðarlaga þar sem ákveðin landsvæði og einstök byggðarlög hafa borið mjög skarðan hlut frá borði. Það að heimilt skuli að flytja út óunninn fisk í gámum án þess að bjóða hann hér á markaði eykur enn á óöryggið og óréttlætið.

Herra forseti. Alvarlegast við núverandi kerfi er óöryggið sem íbúarnir í byggðum meðfram ströndum landsins búa við en samkvæmt núverandi kerfi hafa þessir íbúar ekkert að segja um ráðstöfun fiskveiðiheimildanna eða aflans þegar hann kemur að landi. Sú staða er gjörsamlega óviðunandi.

Þessi skýrsla undirstrikar að við getum ekki búið við óbreytt kerfi. Loforð beggja ríkisstjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar var að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið og ná um það meiri sátt. En hvað hefur gerst? Jú, það situr nefnd til að endurskoða fiskveiðistjórnina en þar virðist ekkert raunhæft vera að gerast. Svo virðist sem stjórnarflokkarnir hafi bundist samtökum um að ekkert skuli gerast á kjörtímabilinu, allt er í skoðun en svo stutt til kosninga að ekki tekur því að gera neitt. Einstaka stjórnarþingmönnum er leyft að leika næsta lausum hala með yfirlýsingar til að slá ryki í augu almennings. Með því er engin áhætta tekin. Það á hvort sem er ekki að breyta neinu. Á meðan, herra forseti, hrannast óréttlætið upp og á meðan blæðir byggðunum meðfram ströndum landsins út.