Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 13:50:07 (6399)

2001-04-05 13:50:07# 126. lþ. 107.94 fundur 457#B sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er vakin upp umræða um byggðaþróun og sjávarútveg. Skýrsla sú sem Byggðastofnun lét vinna fyrir sig tekur af öll tvímæli um að framkvæmd fiskveiðistjórnarkerfisins hefur verið mörgum byggðum landsins dýrkeypt en stjórnarherrar þessa lands hafa verið ötulir við að lofa og prísa þetta kerfi. Þeir hafa ekki viljað horfast í augu við þau alvarlegu vandamál sem hafa skapast.

Nokkur byggðarlög hafa tapað miklum kvóta og þar með hefur fólk sem unnið hefur við fiskvinnslu misst vinnu sína og í beinu framhaldi af því hafa tekjur sveitarfélaganna minnkað. Margföldunaráhrifin eru mikil og þjónusta sveitarfélaganna verður minni og skuldir þeirra meiri og meiri eftir því sem svikamylla kerfisins malar og malar.

Árið 1992 réðu 20 stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi yfir 36% veiðiheimilda en núna átta árum síðar ráða 20 stærstu fyrirtækin yfir 59% þessara heimilda. Þetta er alvarleg þróun sem vekur upp spurningar um það hvort prósentutalan verði komin upp í 82% eftir átta ár og 100% þremur árum síðar. Svo má spyrja í framhaldi af þessu hvort fyrirtækjunum muni fækka svo mikið að aðeins eitt fyrirtæki muni um síðir ráða yfir öllum fiskveiðiheimildum miðanna sem eru í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða kallaðar sameign íslensku þjóðarinnar.

Herra forseti. Fiskveiðistjórnarkerfið okkar þarfnast gagngerra breytinga sem allra fyrst. Samfylkingin hefur lagt fram á þessu þingi réttlátar og skynsamlegar tillögur í fiskveiðistjórnarmálunum. Þær miða að því að jafna aðstöðu fólks til að stofna til útgerða ef það hefur áhuga og löngun. Ég hvet til þess að mjög góður gaumur verði gefinn að þessum tillögum.