Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 13:56:46 (6402)

2001-04-05 13:56:46# 126. lþ. 107.94 fundur 457#B sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég heyri að stjórnarliðar í Sjálfstfl. eru enn þá við nákvæmlega sama heygarðshornið og þeir hafa verið síðasta áratug, að kvótakerfið hafi leitt af sér mikla hagræðingu og fært blessun, atvinnufrelsi og uppgang í byggðir landsins. Þetta eru náttúrlega öfugmæli. Hins vegar hefur enginn framsóknarmaður tjáð sig í þessari umræðu.

Á Ísafirði fækkaði íbúum frá 1995--2000 um 433 eða þremur fleira en störfum fækkaði í fiskvinnslunni. Á síðasta ári störfuðu 190 manns í þremur fiskvinnsluhúsum. 1996 störfuðu 620 manns í sjö fiskvinnsluhúsum.

Kvótinn hefur horfið úr byggðarlögunum, sérstaklega úr aflamarkskerfinu og sjómenn hafa í nauðvörn reynt að koma sér fyrir í smábátakerfinu til að bjarga því sem bjargað verður. Þeim hefur að mörgu leyti tekist það vel. Það hefur verið uppgangur í sumum byggðunum þar sem aflamarkskvótinn hefur farið til stærri fyrirtækjanna með því að sjómenn hafa komið sér fyrir í smábátageiranum. Um það stendur nú slagur hvort þetta eina bjargræði sem sjómönnum stendur til boða og byggðum landsins fái haldið velli eða ekki.

Það mun verða tekist á um þetta það sem eftir lifir af þessu þingi, hvort menn ætla sér að skera smábátaútveginn líka niður við trog og höggva enn þá í byggðirnar. Miðað við málflutning hæstv. ráðherra og stjórnarliða er ekki að heyra að menn ætli í neinu að breyta þeirri höggorrustu sem þeir hófu árið 1990.