Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:01:43 (6404)

2001-04-05 14:01:43# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um vexti og verðtryggingu. Af frv. hafa spunnist nokkuð miklar umræður um sparnað, eyðslu og verðtryggingu sem ég ætla að koma hér inn á á eftir.

Frv. gengur að miklu leyti út frá því að samkeppni vaxi á fjármálamarkaðnum, t.d. er ákvæði um vaxtaálag eða vanefndaálag á dráttarvexti sem menn geta samið um. Það byggir á því að samkeppni sé á milli lánastofnana um að lána út þannig að lántakandinn sé í einhverri stöðu til að semja um lágt vanefndaálag á þá dráttarvexti sem hann er tilbúinn til að greiða. Þetta er að sjálfsögðu háð því að hér myndist sæmileg samkeppni og þar held ég að samkeppnisráð og fleiri hafi misreiknað sig því ég hygg að samkeppnin sé að verða umtalsverð og á næstu árum muni hún vaxa mjög mikið, sérstaklega þegar Íslendingar, bæði sparifjáreigendur og lántakendur, fara að átta sig á gildi netbanka en netbankar eru orðnir nokkrir hér á landi þó það fari nokkuð hljótt. Þeir eru að bjóða með gylliboðum, sem þeir geta, hærri vexti á innlán og lægri vexti á útlánum. Hvers vegna geta þeir það? Vegna þess að þeir eru ekki með alla þá starfsemi sem bundin er í steinsteypu og starfsfólki, í útibúum og í stóru bákni bankanna og þeir eru heldur ekki með þau gömlu lík í lestinni sem eru léleg lán sem oft voru veitt af pólitískum ástæðum.

Nokkuð var rætt í morgun um verðtryggingu og voru nokkrir á móti henni. Verðtrygging hefur verið mjög lengi. Ég hygg að elsta dæmi um verðtryggingu sé á formi sem bændur komu á þegar þeir voru að leigja út frá sér lönd til sumarbústaða því þá skyldi ekki borga með krónum og aurum heldur borga með lambsverði, þ.e. að leigjandinn borgaði gjarnan tvö lambsverð á ári fyrir sumarbústaðinn. Þetta var verðtrygging og hvers vegna skyldi hún hafa verið tekin upp af því fólki sem ég ber mikla virðingu fyrir, þ.e. bændum sem oft eru mjög skynsamir? Það er vegna þess að þeir áttuðu sig á því að krónan rýrnaði en lambið ekki. Það er ekki hægt að reikna út og því vildu þeir taka upp verðtryggingu, lambsverð.

Þannig var um árabil á síðustu öld að sparifjáreigendur voru lamdir aftur og aftur með neikvæðum raunvöxtum. Menn tala um fulltrúa fjármagnsins o.s.frv. En grunnurinn að sparifé og sparnaði landsmanna er alltaf einstaklingar, alltaf. Það er fólkið sem leggur fyrir peninga í lífeyrissjóðunum. Það er fólkið sem leggur fyrir sparnað í bönkunum. Það er fólkið sem hefur keypt í áskrift spariskírteini o.s.frv. Þetta er almenningur og þetta er oft og tíðum ekki ríkasta fólkið í landinu. Þetta er ekki tekjuhæsta fólkið í landinu. Það er nefnilega svo, og það er ákveðin mótsögn í því, að það fólk sem hefur lágar tekjur hefur mesta þörf fyrir að spara og það sparar líka oft og tíðum langmest, a.m.k. hlutfallslega, af launum sínum. Það er reynsla mín frá því að ég starfaði við það að taka við innlánum frá slíku fólki.

Mjög margt fólk sem átti dágóða innstæðu var lágtekjufólk, margt opinberir starfsmenn. Það voru ekki þessir athafnamenn sem talað er um. Ég hygg að athafnamenn eigi aldrei krónu í banka. Þeir skulda. Þeir eru skuldamegin þannig að umræðan í morgun var í rauninni gagnrýni á þann fjölda Íslendinga sem spara og óður til eyðslunnar, eyðslu þeirra sem skulda mikið og það eru oft og tíðum þessir svokölluðu athafnamenn, þeir sem aka um á dýrum jeppum og skulda mjög myndarlega.

Menn hafa haft mikið út á verðtrygginguna að setja. Í sjálfu sér má segja að verðtryggingin sé óþörf þegar verðlag er orðið stöðugt eða verðbólga er jafnlág og nú er, að þá sé verðtryggingin óþörf. En samt er hún ekki óþörf. Af hverju er hún ekki óþörf? Vegna þess að fólk sem var í áratugi lamið fyrir að spara hætti að treysta sparnaðinum. Fólk var ekki tilbúið að spara nema það fengi verðtryggingu, nema það fengi til baka þá peninga sem það lagði fyrir en ekki hálfvirði, þannig að maður sem lagði í banka, segjum hálft bílverð fengi ekki bara tvö dekk til baka nokkrum árum seinna. Hann vildi fá sinn hálfa bíl aftur til baka eða þá lambsverð. Verðtryggingin er því forsenda fyrir trausti manna til þess að leggja peninga inn í banka. Þetta hefur gleymst. Jafnvel enn í dag eru menn hræddir og fullir af vantrausti á krónuna sem slíka vegna þeirrar reynslu sem menn höfðu af óðaverðbólgu í áratugi. Sömuleiðis eru þeir sem taka lán enn þá brenndir því marki að þeir halda að lán sé ,,lán``, þ.e. gæfa. Þeir halda að lántaka sé gæfa og þeir halda áfram að taka lán löngu eftir að það er hætt að borga sig. Þannig heldur fólk áfram gömlum vana. Þess vegna er verðtryggingin nauðsynleg og það merkilega er, herra forseti, að þeir sem eru að gæta hagsmuna skuldara og þykjast vera að gæta hagsmuna skuldara ættu að átta sig á því að verðtryggðir skuldavextir hafa ætíð verið lægri en óverðtryggðir skuldavextir og þá er ég að tala um raunvexti í báðum tilfellum, frá því að vextir voru gefnir frjálsir og það munar 1--2% sem það borgar sig fyrir skuldara að skulda verðtryggt en óverðtryggt.

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum er tæknilega gallað að því er varðar vexti. Það tekur ekki mið af því að vextir geta verið ýmiss konar. Menn geta verið að tala um ársvexti og það er þetta venjulega þar sem vextir eru lagðir við höfuðstól einu sinni á ári. Menn geta verið að tala um hálfs árs vexti þar sem vextir eru lagðir við höfuðstól einu sinni á sex mánaða fresti. Til eru ársfjórðungsvextir, mánaðarvextir, vikuvextir og dagvextir, þ.e. vextir sem eru lagðir við höfuðstól einu sinni á dag.

Samkvæmt þessu frv. er það ekki heimilt og ég skil ekki af hverju það má ekki. Það eru líka til samfelldir vextir sem eru notaðir í núvirðingum til að finna út stærðfræðilegt núvirði fjármagnsstrauma. Ég vísa því til hv. efh.- og viðskn. sem væntanlega fær þetta frv. til umfjöllunar að skoða hvort ekki megi leyfa aðra vexti en ársvexti og þá er ég að tala um að leyfðir verði bara þeir vextir sem þarf á markaðnum, að ekki sé verið að setja nein skilyrði um að þeir séu allir ársvextir.

Svo er líka gert ráð fyrir því að vaxtatímabilið sé 30 dagar í hverjum mánuði, 360 dagar á ári. Þetta finnst mér alveg óþarfi. Ef ég vil taka lán hjá einhverjum manni og hann vill fá vexti í febrúar eins og í janúar þá finnst mér að við megum reikna með 28 dögum í febrúar og 31 degi í janúar eins og okkur sýnist. Það er nefnilega þannig að með þessari reglu eru vextirnir miklu þyngri í febrúar en í janúar. Það munar bara um 10% sem vextirnir eru þyngri í febrúar en í janúar af því að það eru 28 dagar þar en 31 dagur í janúar og í báðum tilfellum eigum við að nota 30 daga. Þetta finnst mér líka vera óþarfi.

Herra forseti. Í morgun komu í ræðustól tveir hv. þm., Karl V. Matthíasson og Steingrímur J. Sigfússon sem höfðu allt á hornum sér varðandi verðtryggingu. Hv. þm. Karl V. Matthíasson vildi taka út V. kaflann um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Ef sá kafli er tekinn út er allt heimilt því að þessi kafli bannar verðtryggingu nema með lánskjaravísitölu. Ég get ekki séð hvað í íslenskum lögum bannar mér að taka lán hjá hv. þm. Karli V. Matthíassyni með þeirri verðtryggingu sem okkur dettur í hug, hvort heldur það er lambsverð eða steinsteypuverð, dollaraverð eða hvað okkur dytti í hug, þ.e. ef þessi kafli er tekinn út. Ég skil reyndar ekki af hverju í ósköpunum við mættum ekki hafa það eins og við vildum. Ég skil ekki hvað löggjafinn er eiginlega að setja einhverjar kvaðir um þá verðtryggingu. Ef hv. þm. Karl V. Matthíasson skyldi eiga aura afgangs og vilja lána mér og mig vantaði aur þann daginn, hvers vegna ég skyldi ekki mega taka lán hjá honum með þeim kjörum sem okkur sýnist, eins og semst um milli okkar. Ef hv. þm. ætlaði sér akkúrat að kaupa lamb í dag og frestar því um eitt ár að kaupa lamb, af hverju skyldi ég ekki borga honum eitt lamb eftir árið? Af hverju skyldi ég ekki mega það?

Ræðurnar hjá þessum tveimur hv. þm. voru, eins og ég kallaði það í andsvari, óður til eyðslunnar vegna þess að þeir voru alltaf að tala út frá sjónarmiði skuldarans. Það er eins og að Íslendingar séu ekkert annað en skuldarar. En það vill svo til sem betur fer, herra forseti, að fjöldi manns á Íslandi, verkamenn, sjómenn, bændur og skrifstofumenn sparar reglulega, leggur fyrir og á sparnað, sem betur fer. Það væri illa komið hjá þjóðinni ef sá sparnaður væri ekki til. Hvað er þetta fólk að gera? Það er að fresta neyslu. Það er að fresta því að fara í sumarleyfisferð. Það er að fresta því að kaupa sér nýjan bíl. Það er að fresta því að kaupa sér skíði eða snjósleða. Það leggur fyrir í staðinn. Það frestar neyslu á meðan aðrir eru að flýta neyslu. Þeir eru að kaupa sér snjósleða sem þeir eiga ekki fyrir og fá til þess lán. Ég skil ekki af hverju hv. þm. er svona umhugað um þá sem eru að eyða og spenna um efni fram. Ég skil það ekki því engir eru fæddir við skuldir. Það er alltaf ákvörðun manna að taka lán. Hver og einn einasti Íslendingur sem skuldar hefur tekið þá ákvörðun sjálfur að skulda. Ég skil ekki hvað þessi tveir hv. þm. voru að agnúast út í sparnað sem er þó undirstaðan undir öllu efnahagslífinu og er gömul og gild dyggð, sérstaklega hjá bændum og verkamönnum sem þessir hv. þm. þykjast eiga fylgi að sækja til. Sparnaðurinn er undirstaðan að allri velferð okkar. Þess vegna eigum við ekki að tala niður til hans eins og það sé eitthvað sem mölur og ryð fær grandað og sé einskis virði og að fáránlegt sé að keppa að slíku, að leggja til hliðar. Það er nefnilega hverjum manni mjög brýnt og hollt að eiga innstæðu í banka svo hann geti sofið rólegur. Það vita þeir sem hafa núna yfir sér hangandi skuldir, vexti og víxla, stöðugt fallandi. Því er mjög brýnt fyrir almennan borgara að eiga sparifé og við skulum ekki tala niður til þess fólks. Það hefur líka lagt sitt af mörkum til þjóðfélagsins því það hefur frestað neyslu. Það hefur ekki keypt það sem aðrir hafa keypt.

Vegna þess að stundum er kvartað yfir því að hv. karlþingmenn séu ekki viðstaddir umræðu um mjúku málin, þá var það þannig í morgun við alla umræðuna að eingöngu karlmenn voru í þessum sal en nú hafa sem betur fer bæst við konur. Ég mátti til með að koma þessu að vegna þess að oft er verið að núa okkur karlmönnum því um nasir að við tökum ekki þátt í umræðum um mjúku málin. En ég vil hugga þá sem það hafa sagt að hv. þingmenn fylgjast með á skrifstofum sínum mjög mikið. Ég reikna með því að hv. þingkonur sem ekki eru í salnum séu að fylgjast með umræðunni af athygli á skrifstofunum.

Það frv. sem við ræðum nú er kannski meira, herra forseti, tæknilegs eðlis og í því er margt til bóta. Þetta byggir á því að samkeppni vaxi. Það sem vantar kannski í þetta frv. er að lánastofnanir birti vexti sína. Nákvæmlega eins og gerð er krafa um að verslanir birti verð á skóm og slíku úti í glugga þá þætti mér ekki verra að í þetta frv. yrði sett krafa um bankar birti vexti, innlánsvexti og útlánsvexti, alla vexti, líka til stóru kúnnanna og líka til þeirra sem fá sérkjör, að allir vextir séu birtir þannig að viðskiptavinurinn megi vita að ef hann ætlar að taka lán þá er þessi banki betri en annar af því að hann er með lægri vexti og ef hann ætli að leggja fyrir þá viti hann að einn banki er betri en annar vegna þess að hann borgar hærri vexti á innlán.