Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:16:15 (6405)

2001-04-05 14:16:15# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði í morgun um verðtryggingu í sambandi við frv. en ég sagði aldrei og var alls ekki að hvetja til þess að fólk sparaði ekki. Ég talaði heldur ekki um að ekki ættu að vera vextir á lánum þegar fólk legði í banka eða fengi lán, alls ekki. Ég talaði einnig um að það væri skynsamlegt hjá fólki að reyna að safna fyrir hlutunum áður en það fer að kaupa þá. En ég sagði líka að stundum eru aðstæður þannig að fólk verður að taka lán. Ég veit ekki hvernig þetta peningakerfi ætti að virka í landinu fyrir alla þá sem eiga peninga ef enginn fengi lán hjá þeim. Er hv. þm. að tala um það að enginn eigi að taka lán yfirleitt og hafa slíkt efnahagskerfi? Mér finnst vera einhver mótsögn í þessu.

Það er dyggð að spara og það er dyggð að standa í skilum og það er gott þegar menn lána. Ef ég lána hv. þm. Pétri H. Blöndal peninga, sem ég treysti mér alveg til, að lána honum nokkrar krónur ef hann vantar, þá reikna ég með því að hann greiði það til baka með fullum skilum. En ég ætlast ekki til þess að hann borgi það margfalt til baka. Ef ég lána hv. þm. Pétri H. Blöndal andvirði eins lambs þá tel ég eðlilegt að hann greiði mér það til baka og kannski svo sem eitt læri með að auki, sem mega þá kallast vextir, en ekki tvö eða þrjú lömb, eins og virkaði í raun og veru fyrir ákveðinn hóp manna sem tók lán hér í eina tíð, og sá hópur var kallaður misgengishópur og lenti í miklum vandræðum og varð gjaldþrota og allt hvað eina.