Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:18:27 (6406)

2001-04-05 14:18:27# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágætt svar. Það er dyggð að spara. Það hefði ég viljað heyra í morgun. Og að menn eigi að greiða lán til baka, það hefði ég líka viljað heyra.

Af hverju skyldi verðtryggingin hafa verið tekin upp? Vegna þess að menn borguðu ekki til baka. Menn fengu kannski lánaðan einn snjósleða og skiluðu skíðum eða bara vettlingi, skíðavettlingi. Verðbólgan var þvílík að peningarnir brunnu upp.

En hv. þm. segir að ef hann láni mér lamb þá skuli ég borga lambið til baka. Hann er sem sagt hlynntur verðtryggingu. Ef mikil verðbólga væri, segjum 50% eins og var hérna í eina tíð, þá borgar hann ekkert lambið til baka. Þá fékk ég lánað hjá honum lamb og borgaði til baka kannski eitt læri. Það var einmitt eðli verðtryggingarinnar að laga þetta og hún er nauðsynleg ef menn hafa ekki trú og treysta ekki því efnahagsumhverfi sem við búum við.

Hann talaði líka um misgengið sem var hérna í eina tíð. Það vandamál, ef það er skoðað grannt, var vegna þess að verðfall varð á fasteignum sem stóðu á bak við lánin sem menn höfðu tekið. Það var ástæðan fyrir því misgengi sem varð. Þegar talað var um misgengishóp þá var það fólk sem hafði keypt íbúðir með verðtryggðum lánum en íbúðirnar héldu ekki í, hækkuðu ekki eins og verðtryggðu lánin, þær lækkuðu.