Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:22:08 (6408)

2001-04-05 14:22:08# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði að fólk þyrfti að hafa trú á gjaldmiðlinum. Fólk sem búið var að leggja fyrir, segjum frá 1960--1980, og tapa og tapa og tapa öll árin hafði enga trú lengur á gjaldmiðlinum. Þetta fólk treystir á verðtrygginguna. Þetta er fólk sem oft og tíðum eru bændur og verkafólk, það treystir á verðtrygginguna, verðtryggingin er haldreipi þess.

Ég þarf ekki verðtryggingu til þess að spara, herra forseti. Ég hef trú á efnahagslífinu núna. En það er ekki það sem við erum að ræða um. Við erum að ræða um traust almennings á því sparnaðarformi að leggja fyrir peninga og fá aftur peningana til baka. Vegna þeirrar reynslu sem menn höfðu í áratuugi, að þeir fengu ekki peningana til baka sem þeir lögðu inn í bankann, þá þurfti að taka upp verðtryggingu og hún er nauðsynleg fyrir þetta fólk. En að öðru leyti hefur hún síminnkandi vægi og síminnkandi gildi og þess vegna skil ég ekki af hverju menn eru svona mikið á móti henni.

Það að menn hafi borgað margfalt til baka er bara ekki rétt. Það hefur aldrei gerst. Verðtryggingin er einmitt hugsuð þannig að menn borgi bara til baka það sem þeir höfðu keypt eða fengið lánað, þannig að menn borguðu ekki margfalt til baka. Það sem gat gerst hins vegar var það að eignin sem menn keyptu lækkaði miðað við lánin og það gat leitt til þess að menn lentu í vandræðum.