Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:40:24 (6414)

2001-04-05 14:40:24# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Málið sem er til umræðu veldur mér nokkrum áhyggjum. Það eru ákvæði í þessu frv. sem er ástæða til að velta fyrir sér hvort eigi að skilja þannig að stjórnvöld treysti ekki á framtíðina í íslensku fjármálakerfi. Þar er ég sérstaklega að vitna til, hæstv. forseti, 15. gr. frv. þar sem Seðlabankinn fær aukinn möguleika til þess að bæta við verðtryggingu, breyta þeim tíma sem nú gildir um verðtryggingu lána.

Hvers vegna skyldu menn vilja gera það? Er það eingöngu vegna þess að þeir vilji, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sagt, leyfa mönnum að semja um hlutina og hafa þá eins og þeir vilja? Þá mætti velta fyrir sér býsna mörgum ákvæðum þessara laga ef menn vilja gefa fullkomið frelsi til þess að fjármagnseigendur og þeir sem þurfa á fjármagninu að halda eigi bara að slást um það og semja um það hvernig kaupin eigi að gerast á eyrinni.

Ég hef haft þá skoðun að verðtryggingarákvæðin hafi verið ofnotuð mjög lengi í bankakerfinu, afar lengi. Mér finnst að þau skref sem hafi verið tekin út úr því hafi verið ákaflega lítil og það hefur verið langt á milli þeirra. Mér finnst þess vegna ekki góðs viti þegar farið er að opna fyrir möguleika til að taka skrefin til baka. Ég spyr: Getur verið að þessa breytingu sem þarna bólar á megi rekja að einhverju leyti til þeirra breytinga sem eru að verða núna á stjórninni á fjármálamarkaðnum? Nú virðist vera að menn ætli að leyfa krónunni að fljóta eins og það er kallað og leyfa henni að sveiflast meira til en hún hefur gert á undanförnum árum. Ég vil því spyrja hæstv. starfandi viðskrh.: Er það þess vegna sem menn vilja auka svigrúm Seðlabankans til þess að leyfa verðtryggingu? Mér finnst ekki góðs viti ef sú er meiningin.

Við skulum gá að því að bankarnir hafa stjórnað þessu þó nokkuð mikið. Þeir hafa passað upp á að rétt hallaðist á hvað varðar verðtryggingu hjá þeim. Ég veit ekki betur en að það sé þannig t.d. í Landsbankanum að þegar verðbólgan tekur stökk upp á við þá græðir bankinn ótæpilega fjármuni. Það er einfaldlega vegna þeirrar samsetningar sem er á þeim skuldum og útlánum sem þar eru. Það finnst mér umhugsunarefni ef menn ætla sér að feta sig aftur inn á þá braut sem verður til þess að auka verðtryggð útlán.

Ég hef reyndar fyrir löngu komist að þeirri niðurstöðu að verðtryggingar séu almennt afar slæmar. Það ber einfaldlega vott um að menn hafi mikla vantrú á efnahagskerfinu ef þeir þurfa á þeim að halda. Krónan og gjaldmiðilinn á auðvitað að endurspegla allt verðmæti í þjóðfélaginu. Þegar menn eru að fikta í þessu og búa til öðruvísi krónur á hinum ýmsu stöðum þá eru þeir að koma í veg fyrir að hið rétta verðmæti endurspeglist í gjaldmiðlinum.

Nú langar mig aðeins að tala um þau ákvæði að menn semji um vexti, þ.e. vaxtaálag. Það er alveg rétt að í vissum tilfellum getur það verið allt í lagi og ágætt, þ.e. ef jafnræði er milli þeirra sem þurfa á lánum og halda og hinna sem lána þeim. En svo hefur nú ekki alltaf verið í bankakerfinu á Íslandi. Ætli það hafi ekki fleiri mætt á bekkina hjá bankastjórunum og þurft að sækja undir þá kjörin en öfugt? Ég er býsna hræddur um að ekki muni allir eiga þar jafna möguleika til að semja. Þarna eru undanskildir einstaklingar en segja má að einstaklingar í hve litlum rekstri sem er séu þá komnir í þá stöðu að semja við sína bankastjóra um dráttarvexti. Ég tel að menn þurfi að hafa gát á því afar vel hvernig með þetta verður farið. Við höfum séð það í gegnum tíðina hvernig lánastofnanir hafa sett þeim sem í vandræði hafa ratað með rekstur sinn afarkosti oft og tíðum. Fram að þessu hefur verið, ef þannig má orða það, lánardrottnamarkaður á Íslandi en ekki lántakendamarkaður þannig að þeim megin hafa menn kannski töglin og hagldirnar enn í dag. Þessu vildi ég koma hér á framfæri.

Mig langar svo til viðbótar að segja það vegna ræðuhalda hv. þm. Péturs H. Blöndals um tapaða fjármuni á öldinni sem leið að æðimargir hafa þurft að borga æðiháa vexti á síðustu áratugum og hefur ekki verið gefið neitt af þeim sem eiga fjármuni á Íslandi að undanförnu, tel ég. Það getur ekki verið röksemd fyrir því að halda við líði fyrirkomulagi sem til lengdar er óeðlilegt, að orðið hafi slys í fjármálastjórn og efnahagsstjórn landsins einhvern tíma á liðinni öld. Ég held að menn ættu nú að sameinast um að reyna að gera þetta efnahagskerfi sem heilbrigðast og sem líkast því efnahagskerfi sem fólk býr við í helstu viðskiptalöndum okkar og í kringum okkur en ekki að sækja sér röksemdir aftur á síðustu öld og til þess tíma þegar allt fór úr böndunum, nema skelfing manna sé bókstaflega svo mikil að þeir telji að svipaðir tímar séu að ríða yfir. Ég er satt að segja ekki svo svartsýnn. Ég tel að menn eigi nú að hafa tækin í höndunum til þess að sjá við því að slíkir tímar komi ekki aftur. En það er engin ástæða til þess að miða við slíkt ástand í afstöðu sinni til þess hvaða ráð eigi að nota við stjórn efnahagsmála og vaxtaákvarðanir eða kjör þeirra sem þurfa að taka lán eða lána peninga í landinu í dag.