Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:13:28 (6417)

2001-04-05 15:13:28# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hugmyndaríkir menn, ég skal ekki efast um það en ég efast hins vegar um að það hafi alltaf gagnast íslenskri þjóð þótt það hafi hugsanlega gagnast þeim sjálfum.

Hæstv. utanrrh. segir að afnám vísitölubindingar launa hafi verið afskaplega gott. Það sem ég var að vekja máls á var að á sama tíma var vísitölubindingu fjármagnsins haldið með skelfilegum afleiðingum fyrir heimili og fyrirtæki í landinu og það var þetta samhengi sem ég var að benda á.

Hæstv. ráðherra segir að við lifum ekki í einangrun, við búum við markaðsbúskap og fáum lítið að gert. Ég held að hæstv. ráðherra sé heldur svartsýnn og nauðhyggjan heldur mikið ráðandi í huga hans. Staðreyndin er sú að við getum sett markaðnum ýmsar skorður og það gerum við. Við bönnum t.d. samráð um verðlag, eins og dæmin sanna nú nýlega, og erum með ýmsar reglur varðandi samruna fyrirtækja og við erum --- meira að segja í þessu frv. --- með ýmsar skorður sem eru settar við verslun með peninga. Hámark er sett á dráttarvexti og samkvæmt þessu frv. hefur Seðlabankinn enn þá heimild til slíks.

Þá er komið að spurningunni sem ég vildi beina til hæstv. ráðherra og hann svaraði ekki: Finnst honum eðlilegt að heimilt sé í senn að tryggja fjármagn með vísitölubindingu og með breytilegum vöxtum? Finnst honum það eðlilegir viðskiptahættir? Síðan hitt varðandi frv. Lúðvíks Bergvinssonar og fleiri um ábyrgðarmenn, þá held ég að ráðherra geti haft meiri áhrif á gang mála en hann vill telja okkur trú um. Ég tel að hér sé á ferðinni eitt mesta þjóðþrifamál sem fyrir þinginu er og mjög brýnt að fá það afgreitt fyrir sumarið.