Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:15:47 (6418)

2001-04-05 15:15:47# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af þessu með ábyrgðarmennina þá verður það að sjálfsögðu að hafa sinn gang og þingið verður að taka afstöðu til þess. Ég held að það sé eins og með öll önnur mál að það hefur sína miklu kosti og sína galla og þingið verður að taka afstöðu til þess. Ég benti á ákveðna galla sem ég sé fyrir mér þó að ég taki undir það að þarna hafi verið gengið of langt.

Hv. þm. sagði um að ég hefði oftrú á frelsinu. Ég hef það nú ekki. (ÖJ: Vantrú á frelsinu.) Hef ég vantrú á því, nú jæja? (ÖJ: Og á eigin möguleikum.) Já, á eigin möguleikum til að stýra þessu? Við búum við ákveðinn fjármagnsmarkað, ekki bara hér á landi heldur um alla Evrópu og við erum bara aðilar að honum. Við höfum hins vegar komið hér upp eftirlitsstofnunum, sem eru Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið, og við höfum verið að efla þessar stofnanir.

Gildi Samkeppnisstofnunar er að koma í ljós núna og unnið hefur verið að því að efla þá stofnun í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem hefur ekki komið mikið inn í þessa umræðu. Það er það sem þarf að gera, þ.e. að efla þessar eftirlitsstofnanir, þar á meðal Fjármálaeftirlitið. Ég tel að það þurfi að ganga lengra í því. Það er það sem frelsið kostar. Menn verða að bera ábyrgð á gjörðum sínum ef þar koma upp slík mál. Það er engin leið að reka frjálsa samkeppni öðruvísi. Ég tek undir það. Auðvitað þarf þar mjög sterkt eftirlit. Það er ekki hægt að hleypa mönnum algjörlega lausum í þessu sambandi, hvorki að því er varðar vaxtamál, fjármálamarkaðinn né neytendamarkaðinn. Ég er algjörlega sammála hv. þm. í þeim efnum. En það þýðir ekkert að ætla sér að stíga skrefið til baka og koma hér á vaxtaákvörðunum uppi í Seðlabanka, eins og ég man eftir frá í gamla daga, enda veit ég að hv. þm. dettur það ekki í hug frekar en mér.