Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:49:47 (6435)

2001-04-05 15:49:47# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um móttöku flóttamanna og aðstoð við þá. Eins og ráðherra gerði grein fyrir er þar breytt lögum um framkvæmd þessara mála. Segja má að um hana hafi verið afskaplega góð sátt og framkvæmdin verið farsæl. Maður hefur að því leyti ekkert við málið að athuga. Hins vegar leiðir það hugann að öðru sem einnig er afar mikilvægt, þ.e. að huga að þeim flóttamönnum sem ákveða síðan gerast íslenskir ríkisborgarar. Það er afar mikilvægt að taka þeim vel.

Vitanlega er misjafn sauður í mörgu fé, eins og máltækið segir. Við þurfum að tryggja að við tökum einnig við þeim, sé óskað eftir því, sem einhvern tíma hefur orðið á þau ár sem viðkomandi hafa búið á Íslandi því að þeirra mannréttindi eru ekki síður mikilvæg en okkar.

Mig langar að fara yfir einstakar greinar, t.d. varðandi skipun Flóttamannaráðs. Ég var að velta því fyrir mér hvort rætt hefði verið um hvort Mannréttindasamtök Íslands ættu að eiga þar áheyrnaraðild. Þau samtök hafa verið í hvað mestu samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Sú stofnun leitar hvað mest til þeirra og Rauða krossins þannig að mér finnst að nefndin ætti að skoða hvort mannréttindasamtökin ættu ekki að hafa þarna ákveðna aðkomu.

Varðandi hlutverk Flóttamannaráðs og þá skýrslu sem ráðið gefur til ráðherra þá tel ég einnig mikilvægt að þingið fái að vita af þessari skýrslu. Ég hef verið talsmaður þess að þessi mál séu sem mest uppi á borðinu. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir störf ráðsins að vita að það starfaði fyrir opnum tjöldum. Þar er að sjálfsögðu fengist við ákveðin trúnaðarmál en hins vegar verða vinnubrögðin öðruvísi og skilvirkari. Með kvöð um ársskýrslu eða annað sem færi fyrir sjónir margra mundu menn hugsanlega vanda meira til verka.

Ég tek undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áðan um ákveðin hættumerki varðandi sveitarfélögin, að þau sæktust eftir að fá flóttamenn til að græða á þeim, eins og stundum er talað um. Það hefur auðvitað viljað loða örlítið við --- sem betur fer hefur það ekki verið í praxís --- að sum sveitarfélög sækist eftir flóttamönnum til þess að leysa ákveðinn atvinnuvanda eða annan vanda í sveitarfélaginu. Fyrir það á að reyna að setja með nefndinni sem fer yfir málin og þeim skilyrðum sem sveitarfélögin verða að uppfylla. Það getur verið ákveðin hætta á þessu. Ég minni á blaðaviðtal frá því um daginn þar sem rætt var við forsvarsmann sveitarfélags. Ég man ekki hvaða sveitarfélag það var en hann talaði um mikilvægi flóttamanna því að þá vantaði fólk í vinnu. Það má ekki vera hvatinn, að fá fólk í vinnu, fylla húsnæði o.s.frv. Þar á sér stað önnur vinna. Ég vil því að hluta taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal, að okkur ber að varast þetta.

Eins og ég sagði hefur framkvæmd þessara mála verið afar farsæl og lítið um hana að segja. Í því sambandi bendi ég hins vegar á 5. gr., sem er mjög skýr í sjálfu sér og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Flóttamannaráð Íslands skal gera þjónustusamning við Rauða kross Íslands um undirbúning móttöku og tiltekna aðstoð við flóttamannahópa fyrsta dvalarár þeirra hérlendis.

Rauði kross Íslands kemur fram sem fulltrúi og talsmaður flóttmannahópa og veitir einstaklingum í hópunum liðveislu.

Ríkissjóður greiðir kostnað af þjónustusamningi þessum.``

Í athugasemdum um 5. gr. er hins vegar talað um að hlutverk Rauða krossins sé meðal annars ,,að vera fulltrúi og talsmaður flóttamannahópa gagnvart almenningi og stjórnvöldum. Jafnframt felur hlutverk hans í sér að veita einstaklingum liðveislu sem á þurfa að halda, t.d. að aðstoða viðkomandi við að fá læknisþjónustu sem ekki er unnt að veita í móttökusveitarfélaginu.``

Þetta stangast að mínu viti á við 8. gr. þar sem talað er um ákveðin skilyrði, þ.e. að hlutverk sveitarfélagsins sem tekur við flóttamönnunum sé að tryggja læknisaðstoð eða heilsugæslu með samningum við nágrannasveitarfélög í öðru umdæmi. Mér finnst það ekki hlutverk Rauða krossins. Það á að vera hlutverk sveitarfélagsins. Við setjum þau skilyrði í 8. gr. og getum ekki fært þau verkefni sveitarfélaganna yfir á Rauða krossinn sem slíkan. Rauði krossinn er hinn mikilvægi tengiliður á milli sveitarfélagsins, þeirra sem taka á móti og hópanna sem koma. Það er afar mikilvægt að þetta stangist ekki á og mér finnst að sveitarfélögin þurfi að tryggja að aðstaðan sé fyrir hendi. Í raun væri afskaplega gott ef þau gætu gert það áður en flóttamennirnir settust að.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir góðri vinnuaðferð. Það er strax myndaður starfshópur á vegum sveitarfélagsins og Rauða krossins þannig að heimamenn koma að málinu í upphafi. Þess vegna er mikilvægt að við skoðum í nefndinni hvernig við getum brúað bilið milli 5. gr. og 8. gr. Félmn. mun fara ofan í þessi mál og aðalatriðið er að ekkert stangist á en við þurfum líka að hafa skýrari framtíðarsýn, gera okkur í hugarlund hvernig við viljum að fólk sem kemur hingað sem flóttamenn og vill síðan gerast íslenskir ríkisborgarar verður metið og kannski verði meira svigrúm gagnvart þessum hópum en öðrum sem sækja um slíkt. Það er mikilvægt að í reglunum sem núna er verið að vinna í allshn. um ríkisborgararétt sé tekið á málum þessa hóps.