Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 15:59:43 (6437)

2001-04-05 15:59:43# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur misskilið mig en hins vegar hefur brunnið við í umræðunni um þessar umsóknir --- ég þekki það því miður frá því að vera sjálf sveitarstjórnarmaður --- að sveitarstjórnarmenn hafi nálgast þetta mikilvæga verkefni á þann hátt.

Ég sagði í upphafi að afar vel væri að þessu máli staðið og öll sveitarfélög sem tekið hefðu að sér þetta verkefni gerðu það með stakri prýði. Það er ekki vandamálið. Þau sveitarfélög sem hafa kannski sótt málið fastast en haft erfiðustu fjárhagsstöðuna hafa kannski ekki fengið verkefnið. Þetta hefur samt sem áður viljað brenna við í umræðunni.

Vissulega hefur vinnan að þessum málum hér verið til fyrirmyndar og ég hef aldrei litið á það sem útlegð að flóttamenn fái inni á Dalvík eða hvar sem er. Það er engin útlegð. Ég hef líka rætt það opinberlega að oft er miklu betra fyrir útlendinga að hefja vist sína í þessu landi og aðlagast því í litlu samfélagi. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar og ég hugsa að við séum alveg sammála um það, ég og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson.