Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:01:03 (6438)

2001-04-05 16:01:03# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að við hv. þm. erum ekkert ósammála. En ég vildi nota þetta tækifæri fyrst og fremst til þess að kveða niður þennan draug. Ég er viss um að sveitarstjórnarmönnum eða fólki á landsbyggðinni þar sem vinnuafl vantar gengur ekkert annað en gott til þegar það bendir á þessa staðreynd. Af þekkingu minni á þessum málum þar sem ég hef komist í návígi við það er litið á það sem hreint mannréttindamál að komast inn í samfélag þar sem er hægt að fá vinnu. Ég held að menn séu að stilla þessu upp þannig að hvað er betra fyrir nýbúa, mann sem kemur, en að geta gengið inn í vinnu. Á Norðurlöndunum er stóra vandamálið að þetta fólk einangrast í vistarverum sínum og kemst ekki út í samfélagið. Það kemst ekki í vinnu. Börnin komast hins vegar í skóla. Það er á þessu sem ég vil hnykkja. Þó að ég komi hér í andsvar við hv. þm. þá er ég ekki að gagnrýna þingmanninn sérstaklega heldur er ég að gagnrýna þá skoðun sem mér finnst hafa svifið yfir vötnunum í fjölda umræðna sem tengjast þessum málum. Ég held að það sé tímabært að kveða það niður því að það er ekki rétt að mínu mati. Ég gæti í langri ræðu flutt rök að því.

Ég er innilega sammála hæstv. félmrh. þegar hann hefur þráfaldlega reynt að benda hv. þingmönnum á þessa stöðu, sérstaklega úti á landi þar sem tekið er á móti þessu fólki. Hæstv. ráðherra hefur innsýn og hefur fylgst með þessu. Þannig standa málin í mínum huga út frá því sem ég hef séð og fundið í mínum eigin beinum.