Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:03:07 (6439)

2001-04-05 16:03:07# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Með þessu frv. er verið að festa í sessi það fyrirkomulag á móttöku flóttamanna og flóttamannahópa sem tíðkast hefur hér. Auðvitað þarf sú móttaka og þær aðferðir og þau vinnubrögð sem viðhöfð eru alltaf að vera í þróun eftir því hvernig samfélagið sem við búum í þróast. Við þurfum því alltaf að horfa á það í heild.

Mig langar aðeins, þar sem þetta mál er til 1. umr. og kemur síðan til nefndar, að velta upp örfáum spurningum varðandi frv. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann teldi að það ætti að kveða jafnafdráttarlaust á um að það eigi að auglýsa eftir sveitarfélögum til að taka á móti flóttamannahópum og er í 6. gr. Það hefur gefist oft ágætlega. En ég velti fyrir mér hvort það sé í öllum tilvikum besta leiðin, hvort ekki geti verið í einhverjum tilvikum kannski ágætis og e.t.v. betri leið að fara fram á það við ákveðin sveitarfélög að taka á móti flóttamönnum og þá kannski í ljósi þess hvers konar flóttamenn það eru sem koma hingað.

Ég verð líka, herra forseti, að taka undir það sem hv. þm. Pétri H. Blöndal sagði hér í andsvari. Það er mjög erfitt að mæla neyð þeirra milljóna flóttamanna sem hrekjast um heiminn, vegna hungurs, styrjalda og alls kyns vandamála sem hafa komið upp. Það er erfitt að mæla hana og fyrir einhverja að ákveða hvar neyðin er mest og síðan að benda okkur á hvar við eigum að koma til aðstoðar. En vissulega hefur Flóttamannaráðið þetta erfiða hlutverk með höndum samkvæmt þessu frv. Þetta er alltaf matsatriði.

Full ástæða er til að nefna það hér að menn mega ekki vera að leysa eigin vanda með því að taka á móti flóttamönnum. Ég ætla ekki að segja að það sé endilega það sem vakir fyrir sveitarfélögum og alls ekki þeim sem hafa tekið á móti flóttamönnum þó að sá tónn hafi oft heyrst. Menn verða að horfa á þetta með öðrum augum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra. Hér er verið að tala um þessa flóttamenn og ákveðnu flóttamannahópa sem við tökum á móti í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í sambandi við ákveðinn samning eða samkomulag. Því spyr ég: Hvað með aðra flóttamannahópa sem óska e.t.v. eftir því að fá að koma hingað? Hvernig eigum við að snúa okkur í því? Mér sýnist ekki beint tekið tillit til þess í frv. ef sú staða kemur upp að flóttamannahópur eða nokkrir flóttamenn óska eftir því að fá að koma hingað og við mundum e.t.v. vilja taka á móti þeim, þ.e. hvernig það fellur inn í þetta mál og hvernig skuli haga því.

Síðan vil ég nefna að ég hefði talið, eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir minntist á, eðlilegt að mannréttindasamtökin ættu a.m.k. áheyrnarfulltrúa í Flóttamannaráði Íslands. Það er líka spurning hvort þau ættu að eiga sinn fulltrúa þar. Það er auðvitað spurning. En þar sem Rauði krossinn á sinn áheyrnarfulltrúa og Samband ísl. sveitarfélaga þá hefði það e.t.v. verið eðlilegt að mannréttindasamtökin ættu sinn fulltrúa þar.

Einnig langar mig til þess að fá nánari skýringu hjá hæstv. ráðherra á því sem segir í 4. gr. um hlutverk Flóttamannaráðs Íslands sem er ætlað að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu um móttöku á flóttamannahópum. Ég velti því fyrir mér hvort það þyrfti kannski ekki að koma frá stjórnvöldum og síðan ynni kannski Flóttamannaráðið úr þeirri stefnu stjórnvalda hverju sinni. En þarna er sem sagt gert ráð fyrir því að Flóttamannaráð Íslands leggi til við ríkisstjórnina heildarstefnu. En getur það ekki komið líka úr hinni áttinni, þ.e. að ríkisstjórnin hafi ákveðna stefnu sem Flóttamannaráðinu sé síðan ætlað að útfæra?

Ég held að þetta séu helstu atriðin sem ég vil fá skýringar á frá hæstv. ráðherra. Eins og komið hefur fram í umræðunni þá hefur móttaka flóttamanna hingað til gefist vel. Kannski þyrftum við að gera meira af því að taka á móti flóttamönnum en við gerum því að þetta er mjög mikill vandi í heiminum eins og menn þekkja. Ég ítreka það að móttaka flóttamannahópa þarf alltaf að vera í þróun, þarf alltaf að vera í endurskoðun þannig að við getum sem best staðið að móttöku þessa fólks sem hefur liðið þjáningar og þurft að vera mislengi fjarri heimahögum sínum eða heimabyggð.