Húsnæðismál

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:28:33 (6446)

2001-04-05 16:28:33# 126. lþ. 107.14 fundur 623. mál: #A húsnæðismál# (kærunefnd, afskriftir, vanskil o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Við höfum búið við nýja húsnæðislöggjöf sem tók gildi í ársbyrjun 1999. Hún er orðin rúmlega tveggja ára gömul og hefur reynst ákaflega vel. Reyndar hefur ýmislegt komið í ljós sem okkur þykir að hefði getað betur farið og því er þetta frv. flutt. Þetta er allt saman ívilnandi fyrir neytendur og ætti að vera þeim til þæginda. Ég vona að samstaða geti tekist um að afgreiða þetta mál fljótt og vel.

Í örstuttu máli er efni frv. það að verksvið kærunefndar húsnæðismála er rýmkað. Opnaður er möguleiki á að afskrifa lán ef veðið eyðileggst. Þess eru dæmi að hús hafi eyðilagst út af veggjatítlum, út af því að opnast hafi hver í kjallaranum og það er ekki heimild til þess að afskrifa lánin í gildandi lögum. Við því er séð í þessu frv. Möguleikar til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum eru rýmkaðir. Í fyrsta lagi með því að fresta greiðslum í þrjú ár. Það er reyndar í gildandi lögum en hér er lagt til að lengja lánstímann sem því nemur, þ.e. greiðslubyrðin þyngist ekki á því sem eftir er heldur verður lánið lengt. Segja má að þetta þriggja ára greiðslustopp verði flutt aftur fyrir á láninu.

Unnt er að breyta vanskilum í húsbréfalán til 15 ára og opnað fyrir möguleika á að lengja lán í allt að 55 ár. Í síðasta lagi er þarna opnuð heimild til að auðvelda sveitarfélögunum að gera innlausnaríbúðir að leiguíbúðum, sveitarfélögum þar sem ekki er hægt að selja húsnæðið, þar sem framboð á húsnæði er allt of mikið.

Þetta er í stuttu máli það sem felst í þessu frv.

Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða um einstakar greinar frv. Ég vil hins vegar láta þess getið varðandi vanskilin, að þrátt fyrir að verið sé að tala um greiðsluerfiðleika og aðstoð við fólk í greiðsluvandræðum, þá hefur umsóknum til Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika blessunarlega farið fækkandi.

Árið 1995 bárust Húsnæðismálastofnun 1.545 umsóknir um greiðsluerfiðleikalán. Árið 1999 voru þau komin niður í 159. Þau voru að vísu örlítið fleiri í fyrra eða 233 en það sem af er þessu ári hafa færri umsóknir borist en á sama tíma í fyrra. Venjulega hefur erfiðasti mánuðurinn í greiðsluerfiðleikabeiðnum verið febrúar en febrúarhrotan kom ekki í ár. Það er eins og menn hafi ráðið betur við að borga af kortunum sínum nú en venjulega.

Jafnframt er ástæða til að nefna að vanskil hjá Íbúðalánasjóði hafa stórminnkað. Árin 1995 og 1996 voru vanskilin 1% sem hlutfall af heildarútlánum. Síðan hafa þau farið stiglækkandi og voru um síðustu áramót komu niður í 0,3%, sem er út af fyrir sig ákaflega gleðileg niðurstaða.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málið verði sent hv. félmn. til athugunar.