Húsnæðismál

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:36:01 (6448)

2001-04-05 16:36:01# 126. lþ. 107.14 fundur 623. mál: #A húsnæðismál# (kærunefnd, afskriftir, vanskil o.fl.) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Mig langaði að segja örfá orð vegna þessa frv. Hér er auðvitað verið að laga til í lögunum um húsnæðismál, nr. 44/1998, og er það afar vel. En það verður að gera meira. Það er í rauninni mjög mikilvægt að tryggja þennan rétt varðandi kærumálin. Ég fagna því sérstaklega. Eins að lengja lánstímann þannig að það flytjist aftur fyrir í stað þess að greiðslubyrðin verði þyngri mánaðarlega. Það er því verið að koma vel til móts við fólk. Og ef til vill hefur það góðæri sem verið hefur stuðlað að því að bæði vanskil og greiðsluerfiðleikar eru minni.

Hins vegar úr því að verið er að opna lögin, þá dettur mér í hug í þessu sambandi, ég er kannski ekki alveg með á hreinu hvort það er þá samkvæmt reglugerð, en það er hvort ráðherra muni beita sér við breytingu á viðmiðum vegna íbúðakaupa. Núna er miðað við brunabótamat og það er ekki það sama og fasteignamat og heldur ekki sama og söluverð eignanna. Þá þarf einhvern veginn að reyna að finna út úr því kerfi þannig að við náum einhverju jafnvægi þarna á milli, því það gengur heldur ekki að lánið miðist við brunabótamat ef fólk er svo að greiða 4--5 millj. kr. meira fyrir íbúðina og hámarkið er 6,4 millj. Það er spurning sem þarf að skoða auðvitað reglulega. Núna er markaðurinn búinn að vera í hámarki, hann er aðeins að ná jafnvægi aftur. Íbúðaverðið hefur hækkað gífurlega en ekki lánin í takti við það. Þetta varðar auðvitað mest unga fólkið og þá sem kaupa íbúðir í fyrsta sinn.

Ég vildi því gjarnan fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvaða skoðun þar er í gangi. En ég fæ ekki betur séð en að frv. fái skjóta og góða meðferð í hæstv. félmn. því hér er einungis um afar góða hluti að ræða sem gagnast fólki sem þarf að nýta sér Íbúðalánasjóð.