Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:57:23 (6452)

2001-04-05 16:57:23# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér hefur hæstv. félmrh. mælt fyrir frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga. Ég vil byrja á því að fagna þessu frv. Það sem ég vil kannski fagna hvað mest er í rauninni sú jákvæða nálgun á málinu og þær miklu breytingar og þau mörgu nýmæli sem hér eru. Auðvitað er ýmislegt sem við vildum kannski sjá útfært betur og vildum gjarnan spyrja um. En öll nálgunin er mjög jákvæð og vinnubrögðin til fyrirmyndar að því leyti að hópur sérfræðinga kemur að þessum málum t.d. úr verkalýðshreyfingu, samtökum atvinnulífsins og úr ráðuneytunum, þannig að það næst utan um vinnuna.

Einnig er búið að vinna gríðarlega fína og góða vinnu hjá Vinnumálastofnun þannig að allt hefur þetta safnast í þann sarp sem gerir það að verkum að hér er í rauninni um margt afar ánægjulega löggjöf að ræða. Það sem ég vil samt minna á og tel afar brýnt er að við skulum ekki hafa allt undir einum hatti, alla útlendingalöggjöf, hvort sem það er atvinnuréttindi eða félagsleg önnur réttindi. Fyrir þá sem þurfa að nýta þessi lög er þetta afar slæmt. Ég vildi gjarnan sjá í rauninni allan útlendingapakkann eins og hann leggur sig á einum stað og þá helst hjá félmrn. þannig að við fengjum af útlendingamálunum þessa lögreglunálgun, svo það sé alveg skýrt.

Það eru mörg áhugaverð nýmæli og jákvæð nálgun sem er mjög ólík útlendingafrv. og ég vil biðja hv. þingmenn að kíkja á 9. gr. Það er afar jákvæð nálgun. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Íslenskukennsla og samfélagsfræðsla. Atvinnurekandi og stéttarfélag skulu veita starfsmönnum með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða.``

Þetta er afar jákvæð nálgun, á meðan við höfum það aftur í útlendingafrv. sem allir hafa gagnrýnt sem að því hafa komið, þ.e. þá klásúlu að skylda eigi útlendinga í íslenskunám. Þá erum við í rauninni bara að tala um sýnilega útlendinga, við erum ekki að tala um þá sem eru í EES, við erum ekki að tala um Norðurlandabúa, við erum að tala um þá sem eru sýnilegir útlendingar, þ.e. fólk frá Asíu. Það var einmitt mjög mikil gagnrýni á þetta t.d. frá Lögmannafélaginu. En hér finnst mér þetta standa eins og það ætti í rauninni að standa í útlendingalögunum. Í rauninni að setja skyldur á hendur atvinnurekanda og verkalýðshreyfingu og annarra og útfæra það nánar. Þetta finnst mér afar jákvætt.

[17:00]

Nýmælin eru afar mörg og mjög góð. Ég vil aðeins benda á 15. gr. Við höfum stundum verið að tala um næturklúbba á hinu háa Alþingi og má minna á að sá sem sér um atvinnuleyfi fyrir dansarana er ASÍ. Þeir eru þeirra umbjóðendur. Einhver sátt hefur orðið um það, en mér finnst að skoða eigi slíkt.

Ég er enn örlítið á því að það eigi að gefa út ákveðnar skýrslur. En mig langar sérstaklega að fagna samráðsnefndinni milli Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar því afar mikilvægt er að það samstarf sé mjög gott. Það hefur líka verið bent á það í útlendingalögunum að afar mikilvægt er að á bak við Útlendingastofnun sé ákveðin nefnd sem geti tekið fyrir mál og skoðað sérstaklega ef upp koma erfiðleikar.

Helstu nýmæli eru mörg mjög spennandi og góð. Það sem er nefnt þarna númer sex hljóðar svo:

,,Í frumvarpinu er heimildarákvæði um að veita nánustu aðstandendum útlendings tímabundið atvinnuleyfi, enda hafi hann fengið búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi.``

Og númer sjö:

,,Með frumvarpinu er, ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi, heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að tímabundið atvinnuleyfi skuli ætíð liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta sinn til starfa hér á landi.``

Ég held að mjög mikilvægt sé að hafa þessa sanngirnisreglur þannig að ráðuneytið geti tekið á slíkum undanþágumálum.

Ég veit núna um mál sem er í farvatninu, en lögin eru óskaplega stíf. Um er að ræða ungmenni, ungt fólk sem er samt sem áður komið undan forræði foreldranna, segjum 18 ára krakkar. Það eru auðvitað krakkar, bara börn þó þau séu orðin sjálfstæð og eigi að geta lifað sjálfstæðu lífi. Tökum dæmi: Móðir býr hér og er gift íslenskum manni og þau eru búin að stofna sína fjölskyldu. Ungmennin vilja koma hingað. Reynt er að fá vinnu. Það gengur ekki, en samt er ákveðið að þau komi á einhvers konar ferðamannapassa. Þá gerist það að um leið og þau eru komin til landsins fá þau vinnu um leið, ekkert mál. En hvað gerist? Þau komu vitlaust inn í landið. Þau þurfa að fara út aftur til þess að koma inn í landið aftur til þess að fá það leyfi sem þarf vegna þess að við erum ekki með neitt ákvæði um það sem er einmitt verið að setja hér inn varðandi þessa sanngirni þannig að hægt sé að taka einstakt mál og skoða það. Þetta á yfirleitt við um fjölskyldumál. Þetta eru nú ekki oft stórar fjölskyldur. Við erum í raun að tala um ungt fólk eins og okkar unga fólk sem kannski langar í skóla eða annað. Ég er því afar sæl að sjá þessa breytingu. Ég hefði gjarnan viljað að hún hefði verið komin fyrr. Ég vil því gjarnan lýsa ánægju minni með að við mýkjum þetta og að við mætum þeim hópi sem hingað kemur, vill vinna og vill vera hérna, með opnum og jákvæðum huga. Það er það sem mér finnst einkenna vinnuna við þetta frv.

Eins er mjög ánægjulegt að sjá atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna. Þetta er auðvitað það sem er að gerast í enn ríkari mæli hér og alls staðar annars staðar. Það er t.d. verið að fá hingað Indverja með sérþekkingu á tölvum o.s.frv. Þetta opnar dálítið þá leið þannig að hægt sé að sækjast eftir því og gefur okkur kannski einhverja von um að við förum að sjá einhverja heildstæða stefnumótun um þessi mál. Félmn. kemur til með að hafa margt að ræða og ég vil, eins og ég sagði áðan, hæla hæstv. félmrh. fyrir afar jákvæða nálgun á þessu máli.