Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 17:04:23 (6453)

2001-04-05 17:04:23# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hlýtur að vera glaður með það lof sem borið var á hann hér áðan og fyrir að leggja þetta frv. fram. En það er gott að þetta frv. er lagt fram. Það er rétt sem fram hefur komið að útlendingum hefur fjölgað á Íslandi vegna þess að skortur hefur verið á vinnuafli, sérstaklega í fiskvinnslu og reyndar öðrum greinum. Eftir því sem þessu fólki hefur fjölgað hafa vaknað ýmsar spurningar og vandamál sem menn hafa ekki séð fyrir og því er þetta frv. komið fram.

Ég vil, eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir áðan, víkja máli mínu að 9. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Atvinnurekandi og stéttarfélag skulu veita starfsmönnum með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða.``

Það vakna spurningar í sambandi við þessa grein, hæstv. ráðherra. Eru til ákvæði um að það sé skylda að halda þessi námskeið og hver kostar þau og ber ábyrgð á þeim? Ég tel þessa grein mjög mikilvæga eins og fram hefur komið hér í umræðunni vegna þess að oft skapast vandamál meðal útlendinga, hvar sem er þar sem menn eru útlendingar í landi, vegna þess að þeir þekkja ekki til staðhátta, þekkja ekki lögin, koma úr öðru menningarumhverfi og skilja ekki reglur sem þykja sjálfsagðar í viðkomandi landi. Þetta vildi ég segja.

Við erum að ræða frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga. Á þeim dögum sem nú líða vakna einnig spurningar í sambandi við réttindi útlendinga þar sem nú stendur yfir verkfall sjómanna. Spurt hefur verið um það þegar hráefni þrýtur í þeim fiskverksmiðjum þar sem margir útlendingar vinna, hvað taki við hjá þeim. Er möguleiki á því að þeim verði sagt upp störfum og að þeir eigi alls engan rétt á því að fá atvinnuleysisbætur þegar þeir eru komnir í þá stöðu að vera í raun orðnir atvinnuleysingjar hér vegna þess að verkfall stendur yfir? Þá er ég að tala um starfsmenn ættaða utan EES-svæðisins, marga sem koma frá Póllandi og öðrum ríkjum.

Það má benda á að útlendingar sem koma hingað til vinnu koma oft frá fátækari löndum þar sem efnahagur er ekki eins góður og hér og þeir koma fullir vonar og hlakka til að vinna hér og eiga kannski bjartari framtíð eða geta unnið fyrir einhverjum peningum og sent síðan til síns heimalands til að hjálpa þeim hluta fjölskyldunnar sem þar er. En það eru ekki góð mál, það eru frekar slæm mál og ill mál ef fólk sem fengið er til að koma hingað til starfa lendir allt í einu í atvinnuleysi og í þeirri stöðu að hafa engan rétt til atvinnuleysisbóta jafnvel þó svo að greitt sé tryggingagjald vegna þess í Atvinnuleysistryggingasjóð. Að þessu langaði mig til að víkja í tengslum við þetta mál. Þetta tengist allt saman, atvinnuréttindi útlendinga og náttúrlega réttindi þeirra. Þess vegna voru það orð í tíma töluð þegar hv. þm. 11. Reykv., Guðrún Ögmundsdóttir, vék að því að öll löggjöf um útlendinga ætti að vera á einum og sama staðnum.

Við vitum að jafnvel nokkur hundruð einstaklingar koma einmitt frá þessum löndum sem ég var að tala um áðan og sá möguleiki er fyrir hendi að þetta fólk verði allt í einu skráð atvinnulaust innan fárra vikna og þá vaknar spurningin: Hvaða rétt hefur þetta fólk til kauptryggingar? Eða hver er réttur þessa starfsfólks til atvinnuleysisgreiðslna ef til uppsagnar kemur af fyrrgreindum sökum? Og svo má spyrja: Hver er réttur slíks starfsmanns til félagslegrar aðstoðar sveitarfélaga við aðstæður eins og hér hefur verið lýst? Síðan vaknar fjórða spurningin: Hver er réttur slíks starfsmanns til greiðslna frá því sveitarfélagi sem hann greiðir til? Þessar spurningar eru í samhljóm við spurningar sveitarstjóra Grundarfjarðar, Eyrarsveitar, sem hefur lagt fram spurningar fyrir félmrn. af því tilefni sem ég nefndi hér.

Ég vil taka undir önnur orð um nauðsyn löggjafar um atvinnuréttindi útlendinga að auðvitað þurfa þau að vera þannig að réttlætis sé gætt gagnvart þeim og náttúrlega gagnvart þeim sem ráða þá til vinnu því þegar um samskipti og samninga tveggja aðila er að ræða verður réttlætið að ná til beggja.