Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 17:11:30 (6454)

2001-04-05 17:11:30# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Mörður Árnason:

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs einkum vegna 9. gr. frv. hæstv. félmrh. og tek undir þau orð sem hér féllu áðan að 9. gr. er auðvitað önnur nálgun en við höfum hér séð gagnvart útlendingum og íslenskukunnáttu þeirra hér á landi, vegna þess að hér er ekki gert ráð fyrir því að það sé beinlínis sök hjá útlendingum að kunna ekki okkar mál heldur að það sé kannski frekar þannig að við eigum að benda þeim á að hér sé talað annað mál en þeir eru vanir í öðrum löndum.

Ég verð að segja að þótt þetta sé jákvætt skref hjá hæstv. félmrh. og þeim sem um þetta véluðu hjá honum að ég held að vandamálið sé meira en svo að þessi úrræði muni á því taka. Ég hygg að hæstv. félmrh., en þó einkum atvinnurekendur og útlendingar sem eru þeirra launþegar eða launamenn, muni finna að hér er ekki mikið færst í fang.

Það er auðvitað þannig að skilyrði þess að láta sér líða þokkalega vel, að vera hæfur til vinnu og til samskipta allra í erlendu samfélagi, er að kunna mál innbyggjaranna að nokkru eða að einhverju því auðvitað er ekki hægt að læra það að fullu. Og ég hygg að starfsánægja og vellíðan í dvalarlandi sé í beinu hlutfalli við þau tök sem útlendingur eða innflytjandi hefur náð á tungumálinu. Um þetta má lesa í skýrslum og greinargerðum alls kyns í þeim löndum þar sem menn eru vanari að fást við þessi mál en við. Við þurfum ekki að fara lengra en til annarra norrænna ríkja til að sjá að þeim hefur, á þeim tíma sem þeir hafa þó haft til ráðstöfunar, gengið blessunarlega vel að nálgast einmitt þetta mál.

Ég hygg t.d. að það sé ekki nægilegt skref að skylda atvinnurekendur til að gefa upplýsingar um þessi námskeið, heldur þurfi sífellt að vera í boði námskeið fyrir útlenda launamenn og raunar aðra útlendinga.

Þá kemur auðvitað að þeim spurningum sem er reyndar, held ég, búið að spyrja með einhverjum hætti: Hver á að halda þessi námskeið? Hver á að halda uppi kennurunum? Hið gamla svar kannski okkar vinstri manna er auðvelda svarið, þ.e. að það séu atvinnurekendur. Málin eru auðvitað ekki svona auðveld og sérstaklega ekki þegar við skyggnumst um á þeim svæðum þar sem útlendingar eru fjölmennir og áberandi, t.d. á Vestfjörðum. Þar eru atvinnurekendur hreinlega ekki í stakk búnir að þeir geti haldið uppi slíkum námskeiðum sjálfir. Nú, á þá ríkisvaldið að gera það? Já, á einhvern hátt á ríkisvaldið að gera það, bæði fyrir launamenn sem hingað koma og innflytjendur almennt. Það er sú nálgun sem við eigum að hafa. Við eigum að tryggja að íslenskukennsla sé í boði fyrir alla þá útlendinga sem kjósa að koma hér og deila með okkur hluta af ævi sinni eða ævinni allri.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hafi í jákvæðum hugleiðingum sínum, því að mér finnst hæstv. félmrh. hafa nálgast þessi mál jákvætt langt umfram það sem af honum er að búast miðað við stöðu hans --- ja, svo ég segi það nú bara --- í aldri, flokki, héraði og fyrri störfum, (Gripið fram í: Og kyni.) og kyni, fyrirgefið --- ég hrósa honum fyrir það og vil því spyrja hann um leið í fyrsta lagi: Hefur honum og samstarfsmönnum hans komið til hugar að hægt væri að búa til einhvers konar opinberan sjóð sem í færi framlag frá atvinnurekendum til þess að halda svona nokkru uppi? Og í öðru lagi: Hefur honum eða samstarfsmönnum hans komið til hugar að hugsanlegt sé að taka upp einhvers konar námskeið sem tengjast beinlínis atvinnu manna? Það er kunnugt í tungumálanámi fullorðins fólks, sem hér er auðvitað fyrst og fremst um að ræða, að það gengur þeim mun betur sem það er nær starfsvettvangi manna og daglegum störfum. Ég hef dæmi um það sjálfur héðan úr Reykjavík þar sem eru fjölmennir vinnustaðir útlendinga --- ég nefni t.d. í heilbrigðiskerfinu --- að þar gengur allt miklu betur ef þannig er farið að að útlendingunum er kennd íslenska með nokkurri tilvísun til þeirra starfa sem fengist er við á hverjum degi. Ella fá menn upp þá stöðu sem ríkir í Reykjavík, a.m.k. á ýmsum dvalarheimilum aldraðra, að þar ganga um útlendingar sem aldrei hafa fengið þessa kennslu og engin áhersla hefur verið lögð á að veita hana og bjóði langömmum okkar -öfum og jafnvel okkur sjálfum þegar fram líða stundir: ,,Do you want coffee or tea?``