Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 17:17:26 (6455)

2001-04-05 17:17:26# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að auka við þann flaum hrósyrða sem hæstv. félmrh. hefur í þessari umræðu fengið af vörum þingmanna Samfylkingar. Ég get samt fúslega tekið undir það að nálgunin í þessu frv. er ákaflega jákvæð og allt önnur en t.d. nálgunin í frv. til laga um útlendinga, sem hefur verið til umræðu líka hér en það frv. var með þeim hætti að mig minnir að sérstök nefnd á vegum Lögmannafélags Íslands hafi lagt fram tillögu um að því yrði kippt til baka í heilu lagi því það væri óalandi og óferjandi.

Öðru máli gegnir um þetta frv. Það er að flestu leyti ákaflega gott. Mig langar aðeins, herra forseti, að koma hingað upp til að inna hæstv. ráðherra eftir tveimur smávægilegum atriðum. Í 12. gr., sem fjallar um atvinnuleyfi vegna námsdvalar, sýnist mér að hæstv. félmrh. leggi til nokkurrar þrengingar miðað við lögin sem gilda í dag, þ.e. ég man ekki betur en að það hafi verið mögulegt fyrir námsmann sem getur framvísað vottorði um eðlilega námsframvindu að fá atvinnuleyfi í krafti námsvistar sinnar í landinu til 12 mánaða. Mér sýnist að þetta sé stytt niður í sex mánuði og spyr hæstv. ráðherra: Hvað veldur?

Ég sé ákveðið framfaraspor í 7. gr. sem fjallar um tímabundin atvinnuleyfi, þ.e. að því leyti að þar er heimilt að veita slíkt leyfi til nánustu aðstandenda útlendings, svo fremi sem viðkomandi hafi fengið búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi. Mig langar að spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig skilgreinir hann nánustu aðstandendur?

Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra og reyndar á einum stað í greinargerð vísan til greinargerðar eða ákvæða í frv. til laga um útlendinga. Eins og ég gat um áðan er óvíst um líf þess frv. og framgang, a.m.k. á þessu þingi. Telur ekki hæstv. ráðherra þess vegna að það væri snjallræði af hálfu þeirrar nefndar sem um þetta fjallar að bæta við í orðskýringar í 3. gr. skilgreiningu á því hvað eru nánustu aðstandendur?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvað felst í orðalaginu ,,heimilt er``. Þýðir það að það verði í valdi ráðherra hverju sinni að taka ákvörðun um þetta eða munu menn setja skýrar og gagnsæjar reglur þannig að geðþótti þess sem stýrir ráðuneytinu ráði ekki?

Að lokum vil ég, herra forseti, hrósa hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir þá framsýni sem t.d. birtist í 10. gr. Ég held að það sé ákaflega þörf grein og þar sýnist mér að við Íslendingar, ef frv. verður að lögum, tökum skref talsvert langt fram fyrir aðrar þjóðir sem glíma við svipaðan vanda og við, þ.e. þurrð á sérhæfðu vinnuafli. Þetta hefur t.d. verið til umræðu í Þýskalandi og öðrum löndum Evrópu og verið ákaflega erfitt að ná niðurstöðu um hvernig eigi að bregðast við. Þarna er hæstv. ráðherra og þeir sem með honum hafa vélað um þetta að leggja til ansi snjalla leið, finnst mér. Hann á sérstakt hrós skilið fyrir það.

Herra forseti. Við eigum nokkra skuld að gjalda útlendingum sem dvelja hér á landi. Í fyrsta lagi hafa þeir auðgað menningarlíf okkar með ýmsum hætti. Ég þarf ekki að brjóta það til mergjar fyrir hinu háa Alþingi. Í annan stað er ljóst að ef ekki kæmi til vinnuafl útlendra manna á Íslandi í dag þá væru að öllum líkindum öll bönd brostin í efnahagslífinu. Þá væri að öllum líkindum skollin á veruleg verðbólga og miklu erfiðara árferði í atvinnulífi en er í dag. Ég held að óhætt sé að fullyrða það og ég er viss um að hæstv. félmrh. er mér sammála um það, að atbeini útlendinga í atvinnulífi Íslendinga hefur orðið til þess að halda þrátt fyrir allt bærilegum böndum á þenslunni. Hún væri að sjálfsögðu sloppin úr þeim viðkvæma fjötri sem hún er í núna ef ekki væri vinnuafl þessa fólks.

Þess vegna segi ég, herra forseti: Við skuldum þessu fólki það að skapa almennilegt umhverfi fyrir það. Ég tek heils hugar undir með þeim þingmönnum Samfylkingar sem hér hafa áður talað og lagt til að öll lög og öll umsjón og atbeini ríkisvaldsins gagnvart útlendingum verði færður á einn og sama stað. Mér finnst sjálfum að með einhverjum hætti þurfi að reyna að taka þennan löggustimpil af afskiptum ríkisvaldsins af útlendingum. Mér finnst, ekki síst eftir að hafa lesið þetta frv., þjóðráð að félmrn. sinnti þessum málaflokki og hefði miklu meiri völd í honum en það hefur í dag.

Herra forseti. Geti hæstv. félmrh. svarað þessum léttvægu spurningum mínum þá þætti mér það betra. Að öðru leyti þá get ég vel sætt mig við að það bíði umfjöllunar nefndarinnar.