Sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 17:56:56 (6461)

2001-04-05 17:56:56# 126. lþ. 107.16 fundur 626. mál: #A sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hreppsnefnd Fljótsdalshrepps hefur óskað eftir að lagaheimild fengist til þess að selja tvær kristfjárjarðir í Fljótsdal. Kristfjárjarðir voru gefnar til fátækraframfæris einhvern tímann í fortíðinni.

(Forseti (GuðjG): Það er fullmikill kliður í salnum.)

Árið 1954 veitti Alþingi heimild til að selja kristfjárjarðirnar í Fljótsdalshreppi. Ekki varð þá af sölunni nema einnar þeirra, þ.e. Geitagerðis, en ekki varð af sölu Arnheiðarstaða eða Droplaugarstaða.

Afla verður sérstakrar lagaheimildar til sölu kristfjárjarða og Alþingi hefur ávallt sett það skilyrði að söluandvirðinu verði varið í samræmi við fornan tilgang kristfjárgjafarinnar. Varðandi þessar tvær jarðir og hvað varðar ráðstöfun þeirra er lagt til í frv. að heimild verði einungis veitt til þess að selja ábúendum jarðirnar. Á báðum jörðum eiga ábúendur nánast allar byggingar og stærstan hluta hins ræktaða lands. Á Arnheiðarstöðum er stundaður sauðfjárbúskapur og á Droplaugarstöðum eru uppi hugmyndir um uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu.

Ég legg til að frv. verði sent félmn. til athugunar. Nokkrum sinnum hefur það komið fyrir að hér hafa verið borin fram frv. um slíkt efni. M.a. var á 7. áratugnum borið fram frv. um sölu tveggja kristfjárjarða í Húnavatnssýslu, Hamars í Svínavatnshreppi og Meðalheims í Torfalækjarhreppi. Þá var hér í starfsliði þingsins snilldarhagyrðingur, Halldóra B. Björnsson, og hún orti af þessu tilefni:

  • Í Húnavatnssýslunni viðreisnin góðbændur gisti
  • þeir græddu sumir, hjá öðrum taprekstur var.
  • Nú vilja þeir efnaðri kaupa jarðir af Kristi
  • og kunna ekki við að hafa hann sveitfastan þar.