Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 17:59:48 (6462)

2001-04-05 17:59:48# 126. lþ. 107.17 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[17:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingu á lögum um húsaleigubætur. Frv. er ekki stórt í sniðum og ívilnandi. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. taki þessu máli vel.

Í stuttu máli er efni frv. það að ekki verði skylt að þinglýsa leigusamningi vegna íbúðar í eigu sveitarfélags eða félaga sem eru að öllu leyti í eigu sveitarfélaga. Þetta er til einföldunar og sparar mönnum bæði fé og ómak.

Í öðru lagi eru skilyrði rýmkuð. Ef umsækjandi eða einhver sem í húsnæðinu býr með honum er skyldmenni leigusala sem býr í sama húsi í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri, þ.e. menn geta leigt af ættingjum sínum, enda búi þeir ekki undir sama þaki og notið húsaleigubóta. En í gildandi lögum eru mjög ströng ákvæði um það að menn mega ekki leigja af skyldmennum sínum og krefjast húsaleigubóta.

Þá er í frv. ákvæði um að ef fatlaðir búa saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlaða eigi þeir rétt til húsaleigubóta. Undanþága þessi gildir einnig um námsmenn sem eru í námi á framhalds- eða háskólastigi og leigja á heimavist eða á námsgörðum. Þannig er að á stúdentagörðunum t.d. við háskólann borga þeir sem búa í herbergjum á gömlu görðunum gjarnan hærri raunleigu en þeir sem búa í ágætum fullkomnum íbúðum og njóta húsaleigubóta.

Þetta er sem sagt meginefni frv. og ég legg til að það verði sent hv. félmn. til athugunar að lokinni umræðu.