Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:08:11 (6464)

2001-04-05 18:08:11# 126. lþ. 107.17 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv., SoG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:08]

Soffía Gísladóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um húsaleigubætur. Hér er réttlætismál á ferðinni og ýmislegt hefur verið lagað sem mátti betur fara í lögunum. Ég vil sérstaklega nefna 2. gr. varðandi skyldmenni leigusala. Þar hafa lögin verið rýmkuð að vissu marki og verður betra fyrir okkur sem þessum málaflokki sinna að sinna ákveðnum hópi eftir þetta.

Í 3. gr. er verið að tala um sambýli fyrir fatlaða. Ég vildi spyrja hæstv. félmrh. að því hvort ráð sé fyrir gert að allir íbúar á sambýlum komi til með að borga leigu eftir að þessi lög öðlast gildi, því að nú borga fatlaðir, a.m.k. á þeim sambýlum sem ég þekki til, fasteignagjöld en ekki leigu. Ég veit að kostnaðarnefnd varðandi ný lög um félagsþjónustu hefur tekið þetta atriði inn í sinn útreikning, þ.e. að fatlaðir komi til með að fá húsaleigubætur, og hefur kostnaðarmetið það fyrir sveitarfélögin, en eftir að lög um félagsþjónustu sveitarfélaga taka gildi. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvort þessum lið verði breytt um leið og þessi lög öðlast gildi, þ.e. að allir fatlaðir á sambýlum fari þá að greiða húsaleigu í stað fasteignagjaldsins.