Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:26:43 (6467)

2001-04-05 18:26:43# 126. lþ. 107.17 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Hérna er verið að leggja fram frv. til laga um breytingar á húsaleigubótum. Það er margt gott í þessu frv., sérstaklega fagna ég 3. gr. sem ég tel til mikilla bóta og náttúrlega ívilnandi og allt gott með það. Ekki er ég að gagnrýna það. En ég vildi kannski gagnrýna eitt í þessu máli hjá hæstv. félmrh. Hérna í umsögn með frv. stendur:

,,Nokkur óvissa er um áhrif frv. á húsaleigubætur til námsmanna á framhalds- og háskólastigi en gera má ráð fyrir að þær gætu numið um 14--16 millj. kr. á ári. Samtals aukast því húsaleigubætur sveitarfélaga um 44--51 millj. kr. á ári verði frv. að lögum. Samkvæmt samningi milli ríkis og sveitarfélaga greiðir ríkissjóður árlega framlag til jöfnunar húsaleigubóta í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og nemur það 306 millj. kr. árið 2001. Ekki liggur fyrir endanlegt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig auknum kostnaði af frv. verður mætt.``

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að ganga frá þessu milli félmrn. og Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en frv. er lagt fram? (Gripið fram í.) Sem sveitarstjórnarmaður líka er ég ekki mjög ánægður með slík vinnubrögð. Hér er verið að samþykkja lög á þinginu áður en búið er að ganga frá fjármálum milli ríkis og sveitarfélaga.