Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:28:45 (6468)

2001-04-05 18:28:45# 126. lþ. 107.17 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson spurði af hverju væri ekki búið að ganga frá samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga. Feginn vildi ég að það væri búið en það hefur bara ekki tekist að koma því saman enn þá en það er verið að vinna að því baki brotnu og ég vonast eftir að það takist áður en þingi lýkur. Ég vonast eftir að þetta frv. verði afgreitt fyrir þinglok. Þá ætti þetta samkomulag að liggja fyrir. Hins vegar var ekki tiltækilegt að bíða lengur með framlagningu frv. vegna þess að það voru síðustu forvöð að leggja fram frv. eins og menn vita fyrir 1. apríl.

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurði um framtíðaráform í leiguíbúðarmálunum. Mér er ljúft að segja frá því að við eigum í mjög ánægjulegum samtölum við lífeyrissjóðina um að þeir komi myndarlega inn í byggingu og rekstur leiguhúsnæðis. Reyndar er einkaframtakið líka að fara af stað að byggja leiguhúsnæði í stórum stíl. Ég hef frá a.m.k. tveimur byggingafyrirtækjum heyrt og séð áætlanir um að byggja og reka leiguhúsnæði í stórum stíl. Enda er það alveg ljóst að hér vantar leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á meðan sveitarfélög í dreifbýlinu eða á landsbyggðinni eru víða í vandræðum með of mikið af húsnæði sem þau sitja uppi með. Vandinn er sem sagt ekki sá sami eftir því hvar maður er á landinu.

[18:30]

Varðandi viðræður við lífeyrissjóðina þá átti ég ágætan fund með þessum aðilum í dag og annar fundur verður vonandi haldinn á mánudaginn. Hægt er að hafa ýmislegt form á þessari innkomu lífeyrissjóðanna. Þeir gætu lánað 10% og Búseti verið t.d. byggingaraðilinn eða sá sem sæi um öflun og rekstur húsnæðisins. Það er líka hægt að hugsa sér að lífeyrissjóðirnir myndi félag, eignarhaldsfélag sem sæi um að afla leiguhúsnæðis og síðan gætu t.d. Félagsbústaðir í Reykjavík tekið að sér að reka það. Aðalatriðið er að menn taka undantekningarlítið á þessu með góðvild og eru í ánægjulegum samræðum.

Á landsbyggðinni er vandinn annar og ég ætla að greina aðeins frá því. Nefnd hefur verið að vinna að því að leysa vanda sveitarfélaganna á landsbyggðinni og samkvæmt niðurstöðum greiningar sem nefndin lét gera eru íbúðir í eigu sveitarfélaganna 2.688, þ.e. um fjórðungur af félagslegum íbúðum í landinu. Innlausnarverð þessara íbúða er 19,4 milljarðar, eignarhlutur sveitarfélaganna er um 25% eða um 4,8 milljarðar. Niðurstöður reiknilíkansins gera ráð fyrir að lækka þurfi verð íbúðanna um 20,8 milljarða. Nefndin leggur til að hafist verði handa við að endurskipuleggja félagsleg húsnæðismál sveitarfélaga með því að stofna eignarhaldsfélög í hverju sveitarfélagi sem hafi með höndum rekstur og umsýslu leiguíbúða. Lagt er til að sveitarfélögin leggi eignarhaldsfélögunum til sinn eignarhluta, þ.e. 4,8 milljarða kr., og síðan þurfi 1,6 milljarða kr. framlag úr öðrum opinberum sjóðum til að lækka verð íbúðanna og tryggja leigufélögunum rekstrargrundvöll. Af þeirri fjárhæð er gert ráð fyrir 1,2 milljörðum til að lækka lán sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð. Framlög úr opinberum sjóðum geta orðið á tvo vegu, annars vegar eingreiðsla í upphafi og hins vegar árleg greiðsla miðað við aðstæður hverju sinni. Það þyrfti um 100 millj. á ári til þess að standa við það.

Rætt hefur verið við sveitarfélögin um framtíðarfyrirkomulag á aðstoð ríkisins við öflun leiguhúsnæðis þannig að þrátt fyrir að vextir hækki og hætt verði að niðurgreiða vexti í svo stórum stíl, þá standi leigjendur jafnir eftir. Það er einkanlega verið að tala um þrjár aðferðir og e.t.v. fleiri leiðir en eina, eitthvert sambland af þeim. Það er verið að tala um hækkun húsaleigubóta, stofnstyrki eða skattfrelsi húsaleigubóta, sem ég teldi að ýmsu leyti hagkvæmustu og eðlilegustu niðurstöðuna.

Til að gefa dæmi um hverjar húsaleigubæturnar eru þá fær fjölskylda með 1,9 millj. kr. árstekjur, sé hún barnlaus, 11 þús. í húsaleigubætur, ef hún er með eitt barn 18 þús. og 20 þús. ef börnin eru tvö. Fari árstekjurnar hins vegar upp í 3,1 millj. þá fá barnlausir engar húsaleigubætur, með eitt barn fá þeir 7 þús. á mánuði, 13 þús. ef börnin eru tvö og 18.500 ef þau eru þrjú. Þannig er ekki rétt að ekki sé tekið tillit til fjölskyldustærðar. Það er byrjað að skerða bæturnar við 2 millj. í árstekjur. Hámark húsaleigubóta getur orðið 35.000. Í ár má reikna með að í húsaleigubætur fari í kringum 700 þús.

Gera má ráð fyrir að 4 milljarðar fari í bætur, sem líka er félagsleg aðstoð, og er ástæða til þess að hafa það í huga. Ef tekjur hjóna eru 2,6 millj., skuldir vegna íbúðar 4 millj. og vaxtagjöldin 300.000, þá fá þessi hjón vaxtabætur upp á 124 þús.

Reykjavíkurborg hefur tekið myndarlega við sér og undanfarin tvö ár keypt 100 félagslegar íbúðir árlega. Þar áður voru á milli 10 og 20 íbúðir keyptar á ári, nema 1998 en þá voru keyptar rúmlega 30 íbúðir.

Afgreiddum lánum á vegum húsnæðisnefndar í Reykjavík hefur fjölgað mjög á síðustu árum, 1999 voru þau 600, 1995 voru þau ekki nema rúm 400 en þau voru milli 500 og 600 á síðasta ári.

Félagslegar íbúðir sem framkvæmdaaðilar á landinu öllu hafa haft til ráðstöfunar til umsækjenda hafa aldrei verið fleiri og aldrei bæst fleiri við en á síðasta ári, þá bættust við 1.800 íbúðir sem eru félagslegar með einhverjum hætti, endursöluíbúðir, nýjar íbúðir inn í kerfið eða íbúðir með viðbótarláni. Árið 1995 bættust rúmlega 1.200 íbúðir við í kerfið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar en þakka fyrir ágætar undirtektir við frv. og góða umræðu.