Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:41:30 (6471)

2001-04-05 18:41:30# 126. lþ. 107.17 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. fullyrti að ég hefði sagt --- og sagði að það væri ekki rétt --- að ekki væri tekið tillit til fjölskyldustærðar við greiðslu húsaleigubóta. Það sem ég átti við var að bætur væru óskertar án tillits til fjölskyldustærðar, enda stendur í ágætum bæklingi félmrn. á netinu, með leyfi herra forseta:

,,Bætur skerðast óháð fjölskyldustærð í hverjum mánuði um 1% af árstekjum umfram 2 millj. kr., samkvæmt reglugerð um húsaleigubætur.``

Einstaklingur með 166 þús. kr. á mánuði fær óskertar húsaleigubætur, nákvæmlega eins og fjölskylda, sex manna fjölskylda, fær óskertar húsaleigubætur að þeim mörkum. Þær eru skertar frá þeim mörkum, jafnt 1% af árstekjum eða 12% af mánaðartekjum, bæði fyrir einstakling og stóra fjölskyldu. En það er rétt hjá hæstv. ráðherra að barnafjölskyldur fá hærri bætur óskertar.

Hins vegar er ekki tekið mið af öðrum fjölskyldugerðum, t.d. þar sem þrjár eldri systur búa saman eða gert ráð fyrir að önnur dæmi geti komið upp. Fjölskyldur eru ekki alltaf með ungabörn. Þá er ekki tekið tillit til þess, þær fá sömu bætur og einstaklingur, þ.e. að fjölskylda sem samanstendur af þremur eldri systrum fær sömu húsaleigubætur og einstaklingur.

Hæstv. ráðherra svaraði hins vegar ekki spurningu minni um hvort ástæða væri til að styrkja einstakling með 200 þús. kr. á mánuði með 6 þús. kr. húsaleigubótum á mánuði.